Góð byrjun hjá Aftureldingu

Egill Magnússon sækir að vörn Aftureldingar í Mýrinni í kvöld.
Egill Magnússon sækir að vörn Aftureldingar í Mýrinni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afturelding fór vel af stað í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld með öruggum sigri á Stjörnunni, 27:22, í TM-höllinni í Garðabæ. Aftureldingarmenn réðu lögum og lofum í leiknum frá upphafi og voru komnir með 11 marka forskot um miðjan síðari hálfleik þegar leikurinn leystist aðeins upp og Stjörnumenn náðu aðeins að klóra í bakkann.

Afturelding var með fimm marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 15:10.

Aftureldingarliðið tók völdin í leiknum strax í upphafi, reyndar eftir að Stjörnumaðurinn Egill Magnússon hafði skorað fyrsta mark leiksins eftir aðeins hálfa mínútu.  Varnarleikur Aftureldingar var góður og Arnór Freyr Stefánsson, markvörður, gaf tóninn strax í upphafi í sínum fyrsta leik fyrir Aftureldingu. Stjörnumenn voru sem slegnir út af laginu. Sóknarleikurinn var hægur og klaufskur og varnarleikurinn ekki burðugur. Vegna slaks sóknarleiks þá fékk Aftureldingarliðið fjölda hraðaupphlaupa þar sem Júlíus Þórir Stefánsson, sem er sömuleiðis nýr í liðinu eins og Arnór Freyr, fór mikinn.

Arnór Freyr varði 12 skot í fyrri hálfleik og var með yfir 50% hlutfallsmarkvörslu.

Helmingsmunur var á liðunum lengst af fyrri hálfleiks. Það var ekki fyrr en eftir að Rúnar Sigtyggsson, þjálfari Stjörnunnar, hafði tekið sinn  annað leikhlé sem það kviknaði á perunni hjá hans mönnum. Þeir hresstust nokkuð síðustu mínútur hálfleiksins og klóruðu aðeins í bakkann. Fyrir vikið voru heimamenn „aðeins“ fimm mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 15:10.

Vissulega vantaði þrjá sterka leikmenn í lið Stjörnunnar að þessu sinn, Ara Þorgeir Magnússon, Árna Þór Sigtryggsson og Sveinbjörn Pétursson. Það afsakar hinsvegar ekki leik liðsins lengst af fyrri hálfleiks.

Vonarneistinn sem vaknaði hjá Stjörnuliðinu á síðustu mínútum fyrri hálfleiks logaði ekki lengi. Aftureldingarliðið réði lögum og lofum framan af síðari hálfleik. Arnór Freyr varði eins og berserkur auk þess sem vörn Aftureldingar vann boltann hvað eftir annað af daufum sóknarmönnum Stjörnunnar. Þegar síðari hálfleikur var tæplega hálfnaður var forskot Aftureldingar orðið 11 mörk, 23:12, og úrslitin löngu ráðin.

Afturelding linaði tökin á Stjörnunni síðasta stundarfjórðunginn. Þess vegna dró aðeins saman með liðunum. Ljóst er hinsvegar að Stjörnumenn eiga talsvert verk fyrir höndum þótt vissulega hafi vantaði inn í liðið að þessu sinni. Sömuleiðis vantaði í lið Aftureldingar m.a. Litháann.

Stjarnan 22:27 Afturelding opna loka
60. mín. Leik lokið - öruggur sigur Aftureldingar staðreynd. Aftureldingarliðið lítur vel út. Stjörnumenn eiga hinsvegar talsvert verk fyrir höndum.
mbl.is