Jafnt í háspennuleik í Safamýri

Andri Heimir Friðriksson sækir að vörn Valsmanna í Safamýri í ...
Andri Heimir Friðriksson sækir að vörn Valsmanna í Safamýri í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram og Valur skildu jöfn, 25:25, er þau mættust í 1. umferð Olísdeildar karla í handbolta í Safamýri í dag. Bæði lið gátu tryggt sér sigurinn á blálokin, en það tókst ekki og skipta þau því með sér stigunum. 

Valsmenn byrjuðu betur og komust fljótlega í 8:3. Daníel Freyr Andrésson kom sterkur inn í mark Vals og varði vel á meðan sóknin gekk þokkalega hinum megin. Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, tók leikhlé í stöðunni 8:4 og var staðan orðin 9:8 skömmu síðar. Valsmenn voru hins vegar sterkari aðilinn síðari hluta fyrri hálfleiks og var staðan í hálfleik 13:10.

Daníel Freyr var með tíu skot varin í hálfleiknum og Anton Rúnarsson með fimm mörk á meðan Valdimar Sigurðsson skoraði þrjú fyrir Fram en Viktor Gísli Hallgrímsson náði sér ekki almennilega á strik í marki Fram. Lárus Helgi Ólafsson leysti hann af og stóð sig ágætlega.  

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn ágætlega og komust í 17:13 í upphafi hans. Framarar hleyptu gestunum hins vegar ekki of langt frá sér og var staðan þegar síðari hálfleikur var hálfnaður 18:18. Valsmenn skoruðu þá þrjú mörk í röð og komust í 21:18.

Fram skoraði þá næstu fjögur og komst yfir í fyrsta skipti, 22:21, þegar nokkrar mínútur voru til leiksloka. Eftir það tóku við æsispennandi lokamínútur og fengu Framarar tækifæri til að skora sigurmarkið í stöðunni 25:25 í blálokin en Einar Baldvin Baldvinsson varði og Valsmenn fengu 20 sekúndur til að skora sigurmarkið. Lárus Helgi Ólafsson varði hins vegar frá Agnari Smára Jóssyni og jafntefli niðurstaðan. 

Fram 25:25 Valur opna loka
60. mín. Leik lokið Sanngjörn úrslit í hörkuleik.
mbl.is