Við áttum að klára þetta

Orri Freyr Gíslason í hörðum slag.
Orri Freyr Gíslason í hörðum slag. Ljósmynd/Stella Andrea

„Við áttum að klára þetta, við vorum yfir í 52 mínútur í dag og við vorum smá klaufar. Framarar eru erfiðir og við vissum að þetta yrði svona í dag,“ sagði Orri Freyr Gíslason, línumaður Vals, eftir 25:25-jafntefli gegn Fram á útivelli í 1. umferð Olísdeildar karla í handbolta í kvöld. 

„Það vantaði smá greddu. Við vorum yfir með þremur og við vildum komast fjórum til fimm yfir til að drepa leikinn en við náðum ekki að gera það í dag. Fram er með gott lið og það er erfitt að drepa leikinn á móti þeim.“

Hann segir Fram með betra lið í ár en í fyrra og segir að meiðsli Magnúsar Óla Magnússonar og Róberts Arons Hosterts í dag hafi tekið á Val. 

„Framarar eru komnir með miklu meiri breidd og þeir eru með 3-4 menn á bekknum sem geta komið inn og gert einhverja hluti. Það var slæmt að missa Magga snemma leiks og svo líka Robba en við áttum að klára þetta.“

Hann segir Valsliðið spila öðruvísi með innkomu Róberts Arons og Agnars Smára Jónssonar. 

„Við erum komnir í meiri skyttubolta. Það var síðast árið 2016 þegar Josip Grgic var sem við vorum með skyttur til að skjóta fyrir utan. Þetta tekur smátíma en við erum búnir að spila vel á undirbúningstímabilin svo þetta ætti að vera komið,“ sagði Orri. 

mbl.is