Loka götu vegna Akureyraruppgjörsins

Akureyri vann Grill 66 deildina í vor en KA komst …
Akureyri vann Grill 66 deildina í vor en KA komst einnig upp um deild. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

KA og Akureyri mætast í Akureyrarslag í 1. umferð Olís-deildar karla í handbolta í KA-heimilinu í kvöld kl. 19.

Liðin léku bæði í næstefstu deild, Grill 66 deildinni, á síðustu leiktíð en enduðu í efstu tveimur sætunum og komust upp. Akureyri vann deildina en KA varð að fara í umspil og komst þannig upp.

Þegar liðin mættust í KA-heimilinu á síðustu leiktíð lauk leiknum með 20:20-jafntefli. KA var hins vegar dæmdur 10:0-sigur þar sem Arnar Jón Agnarsson í leikmannahópi Akureyrar var ekki skráður í félagið og þar með ólöglegur. Akureyri vann svo 24:20-sigur þegar liðin mættust í Höllinni í febrúar.

Á Twitter-síðu KA segir að forsala miða á leikinn í kvöld fari gríðarlega vel af stað. Ákveðið hafi verið að loka annarri akstursstefnunni á Dalsbraut til að fjölga bílastæðum við KA-heimilið. Forsala aðgöngumiða er til kl. 16 í KA-heimilinu og er tekið fram að uppselt hafi verið í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert