Stjörnurnar fara annað fyrir hærri laun og minna erfiði

Nikolaj Jacobsen, þjálfari Rhein-Neckar Löwen.
Nikolaj Jacobsen, þjálfari Rhein-Neckar Löwen. AFP

Danski landsliðsþjálfarinn Nikolaj Jacobsen, sem þjálfar Guðjón Val Sigurðsson og Alexander Petersson hjá Rhein-Neckar Löwen, segir að þýska 1. deildin sé ekki lengur besta handboltadeild heims.

Löwen varð þýskur bikarmeistari á síðustu leiktíð en horfði á eftir Þýskalandsmeistaratitlinum til Flensburg. Liðin leika bæði í Meistaradeild Evrópu þar sem keppni hefst á morgun með meðal annars stórleik Löwen og Barcelona, með Aron Pálmarsson innanborðs, í Mannheim.

Í gegnum tíðina hafa bestu handboltamenn heims viljað spila í Þýskalandi en nú er svo komið að þeir dreifast víðar um Evrópu og franska deildin er sennilega orðin sterkasta landsdeild heims. Það má alla vega lesa úr orðum Jacobsens:

„Þýska deildin er ekki lengur sú besta í heimi. Sú tíð er liðin. Það er ekki tilviljun að tvö ár í röð hafi ekkert þýskt lið verið í undanúrslitum Meistaradeildarinnar,“ sagði Jacobsen við Mannheimer Morgen. Hann er með sínar skýringar á breytingunum og bendir á að leikjaálagið sé minna utan Þýskalands.

„Stjörnurnar vilja frekar fara til Veszprém, Kielce, Barcelona, Nantes, Montpellier eða PSG. Þar fást hærri laun fyrir minna erfiði. Um þetta tala bestu leikmennirnir sín á milli,“ sagði Jacobsen.

mbl.is