Ánægður að fá að spila handbolta aftur

Björgvin Þór Hólmgeirsson missti nánast af öllu síðasta tímabili. Hann …
Björgvin Þór Hólmgeirsson missti nánast af öllu síðasta tímabili. Hann skoraði fimm mörk í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þeir voru skynsamari en við í dag. Við fórum of mikið úr skipulaginu og þá sérstaklega ég,“ sagði svekktur Björgvin Þór Hólmgeirsson, leikmaður ÍR, í samtali við mbl.is eftir 30:24-tap fyrir Selfossi í 1. umferð Olísdeildar karla í handbolta í kvöld. 

Leikurinn var sá fyrsti hjá ÍR á tímabilinu, en Selfoss lék tvo leiki við Dragunas frá Litháen í EHF-bikarnum. 

„Þeir eiga Evrópuleiki á okkur og hafa spilað fleiri leiki, en það er engin afsökun. Þetta var 50/50 leikur þangað til í lokin þegar dró að. Spilamennskan okkar var fín. Vörnin var góð og Stephen var góður fyrir aftan. Við vorum hins vegar of bráðir inni á milli. Það kostaði okkur ódýr mörk í bakið.“

Björgvin missti nánast af öllu síðasta tímabili vegna erfiðra bakmeiðsla. Hann er ánægður með liðið hjá ÍR. 

„Ég er að spila í fyrsta skipti, nánast frá því í öðrum leik í fyrra. Ég kom aðeins inn í úrslitakeppninni en það telur varla. Þetta er fínt, þetta er sami kjarni og svo nokkrir nýir. Við erum flottir og getum unnið alla í deildinni, en líka tapað fyrir öllum.“

„Ég er svo ánægður að fá að spila handbolta. Ég tek einn dag í einu, en núna er ég mjög góður,“ sagði Björgvin Þór Hólmgeirsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert