Ánægður að fá að spila handbolta aftur

Björgvin Þór Hólmgeirsson missti nánast af öllu síðasta tímabili. Hann ...
Björgvin Þór Hólmgeirsson missti nánast af öllu síðasta tímabili. Hann skoraði fimm mörk í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þeir voru skynsamari en við í dag. Við fórum of mikið úr skipulaginu og þá sérstaklega ég,“ sagði svekktur Björgvin Þór Hólmgeirsson, leikmaður ÍR, í samtali við mbl.is eftir 30:24-tap fyrir Selfossi í 1. umferð Olísdeildar karla í handbolta í kvöld. 

Leikurinn var sá fyrsti hjá ÍR á tímabilinu, en Selfoss lék tvo leiki við Dragunas frá Litháen í EHF-bikarnum. 

„Þeir eiga Evrópuleiki á okkur og hafa spilað fleiri leiki, en það er engin afsökun. Þetta var 50/50 leikur þangað til í lokin þegar dró að. Spilamennskan okkar var fín. Vörnin var góð og Stephen var góður fyrir aftan. Við vorum hins vegar of bráðir inni á milli. Það kostaði okkur ódýr mörk í bakið.“

Björgvin missti nánast af öllu síðasta tímabili vegna erfiðra bakmeiðsla. Hann er ánægður með liðið hjá ÍR. 

„Ég er að spila í fyrsta skipti, nánast frá því í öðrum leik í fyrra. Ég kom aðeins inn í úrslitakeppninni en það telur varla. Þetta er fínt, þetta er sami kjarni og svo nokkrir nýir. Við erum flottir og getum unnið alla í deildinni, en líka tapað fyrir öllum.“

„Ég er svo ánægður að fá að spila handbolta. Ég tek einn dag í einu, en núna er ég mjög góður,“ sagði Björgvin Þór Hólmgeirsson. 

mbl.is