Háspennujafntefli hjá Haukum og FH

Ágúst Birgisson í baráttu við Atla Már Báruson í kvöld.
Ágúst Birgisson í baráttu við Atla Már Báruson í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Grannarnir og erkióvinirnir Haukar og FH skildu jöfn, 29:29, í hrikalegum spennuleik í 1. umferð Olís-deildar karla í handknattleik í Schenker-höllinni að Ásvöllum í kvöld.

Lokamínúturnar voru hreint út sagt æsispennandi. Jóhann Birgir Ingvarsson, sem fór á kostum í liði FH, jafnaði metin í 29:29 þegar 20 sekúndur voru til leiksloka. Haukarnir tóku leikhlé og réðu ráðum sínum en síðasta sókn þeirra rann út í sandinn og jafntefli varð niðurstaðan í afar skemmtilegum og spennandi leik.

Haukarnir byrjuðu betur og áttu FH-ingarnir í erfiðleikum með öfluga vörn Haukanna og fyrir aftan hana var Grétar Ari Guðjónsson í góðum gír á milli stanganna. Daníel Þór Ingason var FH-ingum erfiður og eftir 20 mínútna leik virtust Haukarnir ætla að slíta sig frá grönnum sínum þegar þeir náðu mest fimm marka forskoti en FH-ingar voru ekki af baki dottnir. Þeir náðu að þétta vörn sína og króatíski markvörðurinn Lazar Minic átti mikilvægar vörslur. FH-ingar náðu að minnka niður í eitt mark í þrígang en Atli Már Báruson sá til þess að Haukarnir fóru með tveggja marka forskot í hálfleik þegar hann skoraði nánast flautumark eftir einstaklingsframtak úr þröngu og löngu skotfæri.

Haukarnir skoruðu fyrsta markið í seinni hálfleik og náðu þriggja marka forskoti en FH-ingar stöppuðu stálinu í hvorn annan og eftir átta mínútna leik komust þeir yfir í fyrsta skipti, 19:18. Eftir það skiptust liðin á að hafa forystuna en á lokakaflanum snerist leikurinn upp í einvígi Atla Más Bárusonar og Jóhanns Birkis Ingvarssonar en þeir voru algjörlega óstöðvandi og voru bestu menn liða sinna.

Jóhann Birkir skoraði síðustu fjögur mörk FH og sjö af síðustu átta mörkum liðsins, flest með þrumuskotum. Atli Már lék FH-ingana oft grátt og hefur sjaldan litið betur út þessi klóki leikmaður

Daníel Þór Ingason var einnig öflugur í liði Haukanna og Grétar Ari Guðjónsson varði jafnt og þétt í marki Haukanna.

Reynsluboltinn Ásbjör Friðriksson var mjög góður í liði FH en markvarsla FH-inga var mjög slök og vörðu markverðir liðsins aðeins 5 skot. Varnarleikur FH í seinni hálfleik var hins vegar mjög góður.

Daníel Þór Ingason að skora eitt af mörkum sínum gegn ...
Daníel Þór Ingason að skora eitt af mörkum sínum gegn FH í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
Haukar 29:29 FH opna loka
60. mín. Leik lokið Há dramatískt jafntefli.
mbl.is