Rautt spjald Hauks efldi Selfyssinga

Atli Ævar Ingólfsson stingur sér í gegn í kvöld. Sveinn …
Atli Ævar Ingólfsson stingur sér í gegn í kvöld. Sveinn Andri Sveinsson og Þrándur Gíslason Roth reyna að verjast. mbl.is/Árni Sæberg

Selfoss gerði góða heimsókn í Austurbergið í Breiðholti og vann 30:24-sigur á ÍR í 1. umferð Olísdeildar karla í handbolta í kvöld. 

Selfoss skoraði fyrsta mark leiksins en ÍR byrjaði heilt yfir mun betur. Staðan eftir átta mínútur var 5:2, ÍR-ingum í vil. Stepen Nielsen var að verja vel í markinu og sóknarmenn ÍR að nýta færin sín vel. Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfyssinga, tók leikhlé á 16. mínútu í stöðunni 7:5 og skömmu síðar var staðan orðin 9:7, Selfyssingum í vil.

Pawel Kiepulski fór að verja í marki gestanna, en hann hafði farið afar illa af stað. Bjarni Fritzson ákvað þá að taka sitt eigið leikhlé fyrir ÍR og hafði það sömu góðu áhrif, því staðan var 11:11 skömmu síðar. Selfoss var hins vegar sterkari aðilinn í blálok hálfleiksins og var staðan í hálfleik 13:11, Selfossi í vil.

Liðin skiptust á að skora í upphafi síðari hálfleiks, en á 36. mínútu dró til tíðinda. Haukur Þrastarson fékk þá beint rautt spjald fyrir að ýta í Bergvin Þór Gíslason í loftinu. Haukur skoraði ekki í leiknum og spilar landsliðsmaðurinn ungi oftast mun betur.

Selfoss virtist hins vegar eflast við mótlætið og Einar Sverrisson skoraði fjögur mörk fyrir Selfoss á stuttum tíma og breytti stöðunni í 21:16. Fín innkoma Helga Hlynssonar í mark Selfyssinga gerði ÍR-ingum erfitt fyrir við að minnka muninn og Selfyssingar sigldu góðum sigri í hús. 

Einar Sverrisson var markahæstur í liði Selfyssinga með níu mörk og Kristján Orri Jóhannsson gerði sjö fyrir ÍR. 

ÍR 24:30 Selfoss opna loka
60. mín. Elías Bóasson (ÍR) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert