Réðum ekkert við Jóhann Birgi

Halldór Ingi Jónasson í leik með Haukum.
Halldór Ingi Jónasson í leik með Haukum. mbl.is/Árni Sæberg

Haukar hafa ekki lagt granna sína í FH á heimavelli í þrjú ár og engin breyting varð á því í kvöld þegar liðin mættust í 1. umferð Olís-deildar karla í handknattleik í kvöld.

Erkifjendur skildu jafnir 29:29, í mögnuðum spennuleik og óhætt er að segja að þeir 1.100 áhorfendur sem lögðu leið sína í Schenker-höllina hafi fengið mikið fyrir aurinn.

„Jú, kannski eins og leikurinn þróaðist í seinni hálfleik þá voru úrslin sennilega sanngjörn en við hefðum átt að vera búnir að drepa leikinn í fyrri hálfleik með þessum góða varnarleik og með Grétar í stuði í markinu,“ sagði Halldór Ingi Jónasson, hornamaðurinn knái í liði Hauka, við mbl.is eftir leikinn en Halldór er uppalinn FH en gekk í raðir Haukanna fyrir rúmu ári.

„Við klikkuðum úr tveimur dauðafærum þegar við komnir fimm mörkum yfir í seinni hálfleik og við hleyptum einfaldlega FH-ingunum inn í leikinn. Í seinni hálfleik voru liðin að skiptast á að hafa forystuna. Við réðum ekkert við Jóhann Birgi og hann sá til þess að FH tapaði ekki þessum leik. Hann steig upp þegar mest á reyndi en við eigum eftir að eflast og við ætlum okkur stóra hluti í vetur,“ sagði Halldór Ingi, sem skoraði tvö mörk fyrir Hauka, bæði í seinni hálfleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert