Sköpuðum nóg af færum

Pernille Harder, lengst til vinstri, að skora sigurmarkið í leiknum.
Pernille Harder, lengst til vinstri, að skora sigurmarkið í leiknum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Danska landsliðskonan, Pernille Harder, lítur ekki út fyrir að vera neitt annað en venjuleg skólastelpa. Hún er hins vegar baneitraður sóknarmaður og nýkjörin besta knattspyrnukona Evrópu. Hún skoraði sigurmark Wolfsburg gegn Þór/KA á Þórsvellinum í dag en leiknum lauk 1:0.

Sæl Pernille. Er þetta fyrsta heimsókn þín til Íslands?

„Nei. Ég hef komið hingað áður í landsliðsferð.“

Hvað hefurðu að segja um leikinn í dag?

„Við vorum með boltann stærsta hluta leiksins og sköpuðum nóg af færum til að vinna stærri sigur. Þór/KA var að verjast á mörgum mönnum og þær gerðu það vel. Það var þó mikilvægt að vinna leikinn. Seinni leikurinn er eftir og auðvitað ætlum við að fara áfram í keppninni. Það má reikna með að Þór/KA leggi seinni leikinn eins upp og í dag. Þær sýndu mikla baráttu og eru greinilega með næg gæði til að refsa okkur ef við verðum ekki einbeittar.“

Þú náðir þarna góðu marki, varst fyrst í boltann þegar hann datt niður í teignum eftir hornspyrnu.

„Takk fyrir það. Það var gott að skora því svona leikir geta tekið á, þegar maður er í stöðugri sókn en nær ekki að skora. Þetta mark létti aðeins á okkur. Maður verður alltaf að vera á tánum þegar boltinn dettur svona niður í teignum,“ sagði Pernille að lokum.

Pernille Harder, Sara Björk Gunnarsdóttir og samherjar í Wilfsburg fagna ...
Pernille Harder, Sara Björk Gunnarsdóttir og samherjar í Wilfsburg fagna marki Harder á Þórsvelli en það var eina mark leiksins. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is