„Mun ekki gráta mig í svefn“

Vilhelm Gauti Bergsveinsson, þjálfari HK, var svekktur í leikslok.
Vilhelm Gauti Bergsveinsson, þjálfari HK, var svekktur í leikslok. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta eru ákveðin vonbrigði. Ég taldi okkur vera klárar í þennan leik en við klúðrum leiknum á fyrstu fimmtán mínútunum. Við missum þær of langt fram úr okkur og vorum að elta þær allan leikinn sem kann ekki góðri lukku að stýra,“ sagði Vilhelm Gauti Bergsveinsson, þjálfari HK, í samtali við mbl.is eftir 27:18-tap liðsins gegn Haukum í 1. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Digranesi í kvöld.

„Það var mikill skjálfti í mínu liði sem er kannski ekkert óeðlilegt þar sem við erum nýliðar í deildinni. Það eru margar stelpur að stíga sín fyrstu skref hérna í efstu deild og það tók aðeins á taugarnar hjá þeim. Ég vil ekki ganga svo langt að segja að við höfum ekki haft trú á verkefninu en þegar taugarnar byrja að spila inn í hjá leikmönnum þá verður einhvern veginn allt erfiðara inni á vellinum sjálfum. Þú hættir að sjá möguleika í stöðunni og allar æfingar gleymast. Við reyndum að breyta til, sóknarlega, en því miður þá gekk þetta ekki upp hjá okkur í dag. Ég mun ekki gráta mig í svefn í kvöld, það eru enn þá tuttugu leikir eftir af mótinu og við eigum helling inni sem er jákvætt.“

Vilhelm vonast til þess að stærsti skrekkurinn sé nú farinn úr stelpunum og að liðið mæti tilbúið í næsta leik gegn ÍBV, 22. september.

„Við ræddum það í hálfleik að við þyrftum að keyra miklu meira á þær og mæta sterkar í bakið á þeim í varnarleiknum og vera óhræddar. Við vorum of ragar fannst mér í fyrri hálfleik en við náum góðum kafla í síðari hálfleik og minnkum muninn niður í fjögur mörk. Þær skora svo fimm í röð og eftir það var leikurinn búinn. Ég er samt sem áður stoltur af stelpunum og þær reyndu hvað þær gátu og gáfust aldrei upp þótt útlitið hafi verið orðið svart á tímabili. Núna er busavígslan búin, við erum orðnar fullgildir meðlimir í Olís og getum byrjað að taka almennilega á þessu,“ sagði Vilhelm enn fremur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert