„Var skítstressaður fyrir þessum leik“

Elías Már Halldórsson byrjar tímabilið á sigri í Olísdeild kvenna.
Elías Már Halldórsson byrjar tímabilið á sigri í Olísdeild kvenna. mbl.is/Eggert

„Ég er mjög ánægður með þennan sigur. Við vissum að þetta yrði erfitt og það komu upp ákveðin vandamál hjá okkur í leiknum en að sama skapi vorum við sterkari aðilinn allan tímann og áttum sigurinn fyllilega skilinn,“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is eftir 27:18-sigur liðsins gegn HK í 1. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Digranesi í kvöld.

„Um leið og ég fór að hreyfa við liðinu þá kom allt of mikið af tæknimistökum af okkur hálfu og við hleyptum þeim kannski óþarflega mikið inn í leikinn sem var algjör óþarfi. Mér fannst leikmennirnir sem komu inn í fyrri hálfleik of kærulausir og það gerði það að verkum að ég gat ekki hreyft jafnmikið við liðinu og ég hefði viljað. Þetta er samt sem áður eitthvað sem við munum læra af því við munum spila erfiðari leiki í vetur og þá er mikilvægt að leikmenn fái sína hvíld.“

Elías viðurkennir að hann hafi verið stressaður fyrir leik kvöldsins en nokkuð hefur verið um óvænt úrslit í Olísdeild karla og kvenna í upphafi tímabilsins.

Vörnin hjá okkur var góð í dag og þær voru ekki að gera mikið, sóknarlega. Við vorum í vandræðum með Völu í síðari hálfleik en samt sem áður þá er ég sáttur við varnarleikinn. Sóknarlega vorum við að spila margar góðar fléttur og það er margt jákvætt sem ég tek með mér úr leiknum. Ég skal alveg viðurkenna það að ég var skítstressaður fyrir þessum leik. Það hefur verið mikið um óvænt úrslit í þessum fyrstu leikjum tímabilsins, bæði hjá körlunum og konunum, og ég er búinn að vera órólegur lengi þannig að það var mikill léttir að vinna þennan leik,“ sagði Elías enn fremur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert