Verður félag Ólafs tekið til gjaldþrotaskipta?

Ólafur Gústafsson.
Ólafur Gústafsson. Ljósmynd/kif.dk

Nokkrir fyrrverandi leikmenn danska handknattleiksliðsins KIF Kolding hafa óskað eftir því að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Mikil fjárhagsvandræði hafa verið til staðar hjá KIF Kolding og greina danskir fjölmiðlar frá því að félagið hafi nú tvær vikur til að forða því frá gjaldþroti en fjórir fyrrverandi leikmenn liðsins ásamt fyrrverandi starfsmönnum eiga inni laun hjá félaginu og hafa þeir notið aðstoðar Leikmannasamtakanna þar í landi.

Samkvæmt heimildum TV2 er fjárhæðin sem KIF Kolding skuldar leikmönnum og starfsmönnunum á bilinu 1-1,5 milljónir danskra króna en sú upphæð jafngildir 18-25 milljónum íslenskra króna.

Landsliðsmaðurinn Ólafur Gústafsson leikur með KIF Kolding, sem er sigursælasta handknattleikslið Danmerkur en liðið hefur 14 sinnum hampað meistaratitlinum og 8 sinnum bikarmeistaratitlinum. Liðið er í 10. sæti í dönsku úrvalsdeildinni eftir fjórar umferðir með 3 stig.

Fram kemur í frétt TV2 að núverandi leikmenn félagsins hafi fengið laun sín greidd en þeir hafi verið upplýstir í gær um gjaldþrotabeiðnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert