Sigvaldi var óstöðvandi gegn Runar

Sigvaldi Björn Guðjónsson í leik með Aarhus í Danmörku.
Sigvaldi Björn Guðjónsson í leik með Aarhus í Danmörku. Ljósmynd/Ole Nielsen

Handknattleiksmaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson fór á kostum í kvöld þegar lið hans Elverum vann stórsigur á Runar, 38:29, í norsku úrvalsdeildinni.

Sigvaldi, sem kom til liðs við norsku meistarana frá Aarhus í Danmörku í sumar, skoraði 12 mörk úr 14 skotum í leiknum. Línumaðurinn Þráinn Orri Jónsson leikur einnig með Elverum og skoraði tvö mörk.

Elverum hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína á afar sannfærandi hátt eða með samtals 36 marka mun.

Nökkvi Dan Elliðason lék með Arendal sem vann Nærbo, 35:28, á útivelli en náði ekki að skora í leiknum. Arendal er með þrjú stig eftir tvo leiki.

Helena Rut Örvarsdóttir landsliðskona var líka á ferðinni í Noregi í dag en lið hennar, Byåsen, tapaði fyrir Tertnes á heimavelli, 16:20. Helena skoraði eitt mark í leiknum en Byåsen hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í deildinni í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert