Skýr skilaboð að norðan

Þéttur múr KA-manna í leiknum gegn Haukum þar sem KA …
Þéttur múr KA-manna í leiknum gegn Haukum þar sem KA vann stórsigur. mbl.is/Þórir Ó. Tryggvason

Leikmenn KA-liðsins stálu senunni í annarri umferð Olís-deildar karla sem hófst á laugardaginn og lauk í fyrrakvöld.

Fáir hefðu látið sér detta í hug að KA-liðið myndi kjöldraga Hauka, væntanleg meistaraefni, eins og raun varð á. Leikmenn Hauka mættu brattir til leiks en fóru frá Akureyri með skottið milli lappanna eins og gamall sveitahundur sem tekinn hefur verið til bæna af húsbónda sínum.

Lokatölurnar í KA-heimilinu, 31:20, eru hreint lygilegar. Nýliðar KA undir stjórn Stefáns Rúnars Árnasonar sýndu að þeir ætla sér ekki að vera öðrum liðum deildarinnar auðveld bráð, allra síst í víginu í KA-heimilinu. Þeir sendu öðrum liðum deildarinnar skýr skilaboð um að komi þau til leiks með hálfum huga verði þeim engin miskunn sýnd. Hér eftir mun vafalaust enginn vanmeta KA-liðið, allra síst á heimavelli, þótt liðinu hafi svo sannarlega ekki verið spáð glæstum ferli í deildinni áður flautað var til leiks.

Kom aftur, sá og sigraði

Maður umferðinnar var markvörðurinn Jovan Kukobat. Serbinn var fremstur meðal jafningja í KA-liðinu. Hann varði hátt í 30 skot og reyndist Haukum óþægur ljár í þúfu. Kukobat, sem verður 31 árs gamall á jóladag, þekkir vel til á Akureyri. Hann lék með Akureyri handboltafélagi frá 2012 til 2014 og undirstrikaði á þeim tíma, ekki síst síðari veturinn, að hann væri afbragðsmarkvörður. Kubobat kvaddi Akureyri sumarið 2014 og gekk til liðs við HC Vojvodina í heimalandinu og síðar Hapoel Ramat Gan í Ísrael í tvö ár. M.a. kom Kubobat með liðinu til Vestmannaeyja í október 2015 til tveggja leikja í annarri umferð Áskorendakeppni Evrópu. Kukobat flutti á ný til Akureyrar fyrir rúmu ári og gekk til liðs við KA. Sjálfsagt naga einhverjir sig í handarbökin yfir að hafa ekki treygt sig eftir Kukobat áður hann endurnýjaði kynnin við höfuðstað Norðurlands.

Hvort sem framhald verður á ævintýri Kukobats og félaga í KA í næstu umferðum Olís-deildarinnar eða ekki er ljóst að uppnám það sem þeir ollu í annarri umferð kryddar upphaf Íslandsmótsins. Sannarlega verður enginn meistari í október, eins og þjálfari liðs í deildinni benti á í samtali við mbl.is á laugardag. Það vita gulklæddir leikmenn KA jafnvel enda er Íslandsmótið leitt til lykta á vorin.

Sjá úttekt á 2. umferðinni og úrvalslið 2. umferðarinnar í Olísdeild karla í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert