„Ég veit ekki alveg hvað gerðist“

Arna Sif Pálsdóttir í landsleik.
Arna Sif Pálsdóttir í landsleik. mbl.is/Valgarður Gíslason

Arna Sif Pálsdóttir gekk nýlega til liðs við ÍBV í Olís-deild kvenna í handknattleik en hún var augljóslega ekki ánægð með tap síns liðs gegn nýliðum HK þegar liðin áttust við í dag.

„Þær mættu tilbúnar til leiks, markvörðurinn þeirra var klárlega búinn að vinna sína heimavinnu og stóð sig ótrúlega vel. HK-stelpurnar í vörninni stóðu sig einnig mjög vel, við vorum ekki nægilega tilbúnar, sérstaklega sóknarlega í dag.“

HK byrjaði gríðarlega vel í leiknum en ÍBV átti gott áhlaup þar sem liðið tók forystu en síðan virtist allt hrynja hjá liðinu.

„Ég veit ekki alveg hvað gerðist, við þurfum að fara að æfa okkur í að skjóta, alveg klárlega. Eins og ég sagði þá var markmaðurinn þeirra ógeðslega góð í dag og þær allar í flottu standi. Þetta er flott lið og geta þær strítt öllum liðum í deildinni, þetta sannar fyrir okkur að við þurfum alltaf að vera í tánum. Þetta er sterk deild og hvert einasta lið þarf að mæta tilbúið til leiks,“ sagði Arna Sif en heldur hún að leikmenn ÍBV hafi vanmetið andstæðinginn?

„Það var klárlega engin hjá okkur sem mætti og var að búast við einhverju rústi, við vissum að þetta yrði erfitt fyrir okkur. Við áttum erfitt með Stjörnuna og vissum að við ættum á brattann að sækja, en við þurfum að þjappa okkur saman og byggja upp sjálfstraust.“

Arna talaði um skotin hjá liðinu og að þau þyrfti að laga en varnarleikurinn var góður í dag og Guðný Jenný einnig fyrir aftan vörnina.

„Stærstan hluta leiksins var vörnin mjög góð, markvarslan líka. Þegar maður fær á sig 22 mörk þá á maður að vinna leikinn, þetta er sóknarleikurinn hjá okkur, við vissum að við þyrftum að bæta okkur þar og vinna í honum. Við fengum ekki hraðaupphlaupin í dag sem við reynum að byggja okkar sókn á. Við eigum helling inni og ætlum ekki að fara að grafa okkur í einhverja holu eftir þetta, ég hef þvílíka trú á þessu tímabili hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert