Ólafur er að komast af stað á ný

Ólafur Andrés Guðmundsson í skotfæri.
Ólafur Andrés Guðmundsson í skotfæri.

Ólafur Andrés Guðmundsson, landsliðsmaður í handknattleik, vonast til þess að geta í dag leikið sinn fyrsta leik á keppnistímabilinu með Svíþjóðarmeisturum Kristianstad þegar liðið sækir Vardar heim í annarri umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Ólafur Andrés, sem er fyrirliði Kristianstad, meiddist á kálfa á síðustu æfingu fyrir fyrsta leik liðsins í sænsku úrvalsdeildinni í byrjun þessa mánaðar og hefur verið af þeim sökum frá keppni.

„Ég hef æft vel í þessari viku og verð vonandi með gegn Vardar í Meistaradeildinni,“ sagði Ólafur Andrés við Morgunblaðið í gær. „Ég meiddist á kálfa á síðustu æfingu fyrir keppnistímabilið og hef átt í þeim meiðslum síðan,“ sagði Ólafur ennfremur.

Kristianstad hefur farið vel af stað í sænsku úrvalsdeildinni þrátt fyrir fjarveru Ólafs. Liðið hefur unnið fjóra fyrstu leiki sína. Hins vegar tapaði Kristianstad fyrsta leik sínum í Meistaradeild Evrópu sem fram fór um síðustu helgi gegn Meshkov Brest, 32:30. iben@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert