„Ég tek þessu stigi fagnandi“

Örn Þrastarson, þjálfari Selfoss, ásamt Rúnari Hjámarssyni, aðstoðarþjálfara liðsins.
Örn Þrastarson, þjálfari Selfoss, ásamt Rúnari Hjámarssyni, aðstoðarþjálfara liðsins. mbl.is/Hari

„Þetta var kaflaskiptur leikur og mikil barátta. Flott heilt yfir og stemmningin góð í húsinu,“ sagði Örn Þrastarson, þjálfari Selfoss, eftir 34:34-jafnteflið gegn Stjörnunni í Olísdeild kvenna í handknattleik á Selfossi í kvöld.

„Við vorum ekki alveg nógu klókar á tíu mínútna kafla í seinni hálfleik þegar Stjarnan fór af stað. Ég var kannski aðeins of seinn að bregðast við varnarlega líka, en stelpurnar voru flottar. Sóknarlega kom smá hik á okkur þegar þær fóru að taka Hönnu úr umferð en við leystum það flott, kannski hefðum við mátt gera það aðeins fyrr. Þetta var flott heilt yfir en ég hefði viljað sjá okkur klára skotin betur á þessum lykilaugnablikum,“ sagði Örn enn fremur.

„Ég er hrikalega ánægður með karakterinn í stelpunum, við erum í erfiðri stöðu hér í lokin en náum að sigrast á því mótlæti. Það má kannski segja að þetta hafi verið sanngjörn úrslit, þetta var erfiður leikur og Stjarnan betri í seinni hálfleik. Ég tek þessu stigi fagnandi, við erum komnar á blað og þetta er unnið stig,“ bætti Örn við og hrósaði Stjörnuliðinu í kjölfarið.

„Stjarnan er búin að vinna gríðarlega vel úr sínum málum, eru með fullt af sterkum leikmönnum. Þórey Anna var stórkostleg í dag, við réðum ekkert við hana. Laufey Ásta frábær og það er þvílík reynsla í Kristínu. Guðrún Ósk í markinu tók lykilbolta í lokin og þær gerðu okkur erfitt fyrir. En við komum til baka og ég er hrikalega, hrikalega ánægður með það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert