„Fannst við eiga bæði stigin skilið“

Sebastian Alexandersson, þjálfari Stjörnunnar, var að mæta sínum fyrrverandi lærisveinum …
Sebastian Alexandersson, þjálfari Stjörnunnar, var að mæta sínum fyrrverandi lærisveinum í kvöld. mbl.is/Guðmundur Karl

„Mér fannst við eiga skilið að vinna,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 34:34-jafntefli gegn Selfossi á útivelli í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld.

„Eins bjánalega og það hljómar þá var leikplanið það að halda okkur í rassinum á þeim og við ætluðum að taka fram úr þeim á síðasta kortérinu. Það gekk bara helvíti vel upp,“ sagði Sebastian. 

Hlutirnir breyttust mikið þegar þið fóruð að taka Hrafnhildi Hönnu úr umferð.

„Mér finnst hundleiðinlegt að þurfa að taka hana úr umferð, en hvað á ég að gera?“

Er það lykillinn að því að stöðva Selfoss?

„Greinilega ekki, þær skoruðu 34 mörk.“

Og svo sleppið þið henni lausri í lokasókninni þar sem Selfoss nær að jafna?

„Nei, við vorum með mann á henni. Hún náði bara að hlaupa hana af sér.“

Stjörnuþjálfarinn var ánægður með sitt lið og taldi það eiga sigurinn skilinn.

„Já, mér fannst við klárlega eiga skilið bæði stigin. Við erum með einhverjar 10 mínútur í brottvísanir á móti engri, sem er náttúrulega bara hlægilegt. En menn verða bara að eiga það við sig eftir hvaða línu þeir eru að dæma,“ sagði Sebastian og bætti við að margir leikmenn í hans liði hefðu verið að standa sig vel. 

„Í síðasta leik þá var sóknarleikurinn vandamál og varnarleikurinn frábær. Í dag var sóknarleikurinn frábær og varnarleikurinn vandamál. Þetta er bara lið í mótun, þetta tekur tíma. Daginn sem við hittum á réttu blönduna þá vinnum við hvern sem er,“ sagði Sebastian að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert