Kannski geri ég óraunhæfar kröfur á Hreiðar

Einar Jónsson.
Einar Jónsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Frammistaðan var fín í dag og ég er svekktur að ná ekki stigi eða stigum,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Gróttu, eftir svekkjandi 28:27-tap fyrir FH á útivelli í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. 

„FH-ingarnir gerðu aðeins meira en við til að vinna og við vorum klaufar. Við vorum að fá of mikið af mörkum á okkur eftir fráköst á meðan við fórum illa með góð færi í seinni hálfleik. Það voru þannig atriði sem skildu á milli.“

Hreiðar Levý Guðmundsson varði yfir 20 skot í marki Gróttu, en Einar hefði viljað sjá markmanninn verja nokkur skot sem rötuðu inn undir lokin. 

„Markvarslan var jafngóð báðum megin, við vorum ekki með yfirhöndina þar. Kannski geri ég óraunhæfar kröfur á Hreiðar en mér fannst 2-3 boltar í seinni hálfleik sem hann hefði getað varið. Þeir voru að leka inn í markið.“

Grótta hefur spilað ágætlega til þessa á tímabilinu, en þrátt fyrir það er eitt stig úr þremur leikjum raunin. 

„Maður á það bara skilið sem taflan segir. Við vorum klaufar á móti ÍBV. Auðvitað hefði ég viljað tvö stig þar á meðan Valsararnir voru betri en við. Við hefðum getað fengið stig í dag, en það er alltaf ef og hefði. Við erum með eitt stig og það er bara þannig. Við höfum verið að spila á móti helvíti góðum liðum á útivelli líka,“ sagði Einar Jónsson. 

mbl.is