„Bilað lið hérna á Selfossi“

Elvar Ásgeirsson.
Elvar Ásgeirsson. mbl.is/Hari

„Að sjálfsögðu erum við svekktir. Okkur finnst þetta tapað stig úr því sem komið var,“ sagði Elvar Ásgeirsson, markahæsti leikmaður Aftureldingar, eftir jafnteflið gegn Selfossi í Olís-deild karla í handbolta í kvöld.

Afturelding hafði frumkvæðið lengst af í Hleðsluhöllinni á Selfossi og náði mest fjögurra marka forskoti en lokatölur urðu 29:29.

„Við vissum að það yrðu sveiflur í þessu, tvö góð handboltalið og við skiptumst á að gera áhlaup. Við vorum alltaf skrefinu á undan en þú hristir Selfyssinga ekkert af þér. Þetta var alltaf að verða jafn leikur og það var svekkjandi að ná ekki að klára þetta,“ sagði Elvar enn fremur, en Afturelding fékk þrjú tækifæri í lokasókninni til þess að skora sigurmarkið.

Gestirnir byrjuðu af krafti en þegar leið á leikinn hægðist nokkuð á sóknarleik þeirra og hendurnar á dómurunum voru iðulega komnar upp, til marks um langar sóknir.

„Við ætluðum að reyna að vera yfirvegaðir, sérstaklega þegar þeir myndu koma hátt eins og við bjuggumst jafnvel við að þeir myndu gera. Þegar Selfyssingarnir komu upp þá er lykilatriði fyrir okkur að vera ekki að henda boltanum út af og missa boltann, þannig að við vorum að reyna að leggja upp með að taka langar sóknir og reyna að finna færin,“ sagði Elvar, sem átti mjög góðan leik og kom Mosfellingum iðulega til bjargar þegar sóknirnar voru að renna út í sandinn.

Hann hrósaði líka stemmningunni í Hleðsluhöllinni [Iðu], nýja heimili handboltans á Selfossi.

„Já, fyrst og fremst var þetta skemmtilegur leikur. Fyrsti leikur Selfyssinga hérna í Iðu og það er bilað lið hérna á Selfossi, þetta er mikill handboltabær og það er ógeðslega gaman að spila hérna sem útilið,“ sagði Elvar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert