Lagði gamla samherja sína

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Ljósmynd/Barcelona

Handknattleiksmaðurinn Aron Pálmarsson hafði ástæðu til þess að fagna þegar hann og samherjar hans í Barcelona unnu fyrrverandi samherja hans í Veszprém frá Ungverjalandi í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik um helgina, lokatölur 31:28.

Aron skoraði þrjú mörk í leiknum sem fram fór í Palau Blaugrana í Barcelona. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn sem hann leikur gegn Veszprém eftir að hafa yfirgefið liðið fyrir ári. Brottförin var ekki alveg hávaðalaus. Barcelona vann þar með sinn fyrsta leik í keppninni á leiktímabilinu.

Alexander Petersson skoraði átta mörk og Guðjón Valur Sigurðsson fimm þegar Rhein-Neckar Löwen tapaði fyrir pólska meistaraliðinu Vive Kielce í viðureign liðanna í Kilece Póllandi, 35:32. Löwen er með tvö stig eftir tvo leiki í A-riðli eins og Barcelona en Vardar frá Makedóníu og Meshkov Brest frá Hvíta-Rússlandi eru efst með 4 stig hvort. Evrópumeistarar Montpellier hafa farið illa af stað, eru án stiga eftir tvo leiki.

Ólafur Andrés Guðmundsson lék sinn fyrsta leik með Kristianstad á leiktíðinni þegar liðið tapaði fyrir Vardar í Skopje, 33:25. Ólafur skoraði 3 mörk og Arnar Freyr Arnarson eitt. Teitur Örn Einarsson komst ekki á blað yfir markaskorara sænska meistaraliðsins.

Danska meistaraliðið Skjern hefur unnið tvo fyrstu leiki sína í B-riðli. Í gær lagði liðið Zaporozhye frá Úkraínu á heimavelli, 37:33. Björgvin Páll Gústavsson var ekki aðsópsmikill í marki Skjern en Tandri Már Konráðsson tók til hendinni í vörninni.

Stefán Rafn Sigurmannsson og samherjar í ungverska meistaraliðinu Pick Szeged unnu Nantes, 30:28, í Szeged. Stefán skoraði ekki mark í leiknum. Szeged hefur fjögur stig eins og Skjern í B-riðli eftir tvær umferðir.

Sigvaldi Björn Guðjónsson átti stórleik fyrir Elverum þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir Wisla Plock, 30:28. Sigvaldi Björn, sem kom til Elverum í sumar frá Århus, skoraði níu mörk og hefur þar með skorað tólf sinnum fyrir liðið í fyrstu tveimur leikjum keppninnar. Seltirningurinn Þráinn Orri Jónsson skoraði ekki að þessu sinni fyrir Elverum sem rekur lestina án stiga í D-riðli Meistaradeildarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert