Æsispennandi fyrsti sigur Gróttu

Alexander Jón Másson, Gróttu, stekkur inn úr horninu í KA-heimilinu …
Alexander Jón Másson, Gróttu, stekkur inn úr horninu í KA-heimilinu í kvöld án þess að Heimir Örn Árnason komi vörnum við. Ljósmynd/Þórir Ó.Tryggvason

Grótta vann sinn fyrsta leik á tímabilinu í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld þegar liðið heimsótti KA norður yfir heiðar. Úr varð sannkallaður háspennuleikur þar sem Grótta vann að lokum með einu marki, 22:21.

Grótta leiddi leikinn í byrjun en smám saman óx heimamönnum ásmegin og var vörn þeirra mjög öflug. Jovan Kukobat var á tánum í markinu og varði hann átta skot í fyrri hálfleik. Hreiðar Levý Guðmundsson var einnig öflugur hjá Gróttu en hann var með sjö skot í hálfleik.

Staðan var 14:10 fyrir KA þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Gróttumenn voru snöggir að vinna upp muninn í seinni hálfleik þegar KA-menn tóku margar kolvitlausar ákvarðanir og köstuðu þeir gulklæddu t.a.m. þremur hraðaupphlaupum á eldinn í röð. Þarna snerist leikurinn og Grótta tók öll völd um tíma. Gestirnir komust loks yfir um miðbik hálfleiksins og héldu þeir forskotinu til loka. KA fékk aragrúa tækifæra til að jafna á lokamínútunum en Hreiðar Levý Guðmundsson varði fjögur skot í lokin og lokaskot KA-manna fór í stöngina.

Grótta vann sinn fyrsta sigur í deildinni á tímabilinu en KA hefur nú tapað tveimur leikjum í röð gegn liðum sem áttu að vera í botnslagnum með þeim.

Leikurinn var fjáröflunarleikur fyrir gamla KA-kempu, Ragnar Snæ Njálsson, en Fanney Eiríksdóttir eiginkona hans var greind með leghálskrabbamein á miðri meðgöngu annars barns þeirra. Kom það í heiminn fyrir tveimur vikum en fram undan er hörð barátta við meinið.

KA 21:22 Grótta opna loka
60. mín. Grótta tekur leikhlé Það eru 44 sekúndur eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert