Rifta samningnum við Kiel

Christian Dissinger í baráttu við Aron Pámarsson í undanúrslitaleik Kiel …
Christian Dissinger í baráttu við Aron Pámarsson í undanúrslitaleik Kiel og Veszprém í Meistaradeild Evrópu fyrir tveimur árum. AFP

Alfreð Gíslason, þjálfari þýska stórliðsins Kiel í handknattleik, hefur nokkuð óvænt misst sterkan leikmann úr sínu liði.

Um er að ræða þýska landsliðsmanninn Christian Dissinger, en hann var samningsbundinn Kiel til ársins 2020. Í tilkynningu á heimasíðu Kiel í dag er hins vegar greint frá því að í sameiningu hafi verið ákveðið að rifta samningnum við stórskyttuna.

„Hvorugur málsaðili var ánægður með núverandi stöðu. Christian þurfti að spila meira en við gátum ekki lofað honum því hjá okkur. Sameiginleg ákvörðun um að rifta samningnum er því besta ákvörðun fyrir báða aðila,“ segir Viktor Szilagyi, íþróttastjóri Kiel.

Dissinger er 26 ára gamall og hefur verið hjá Kiel síðan 2015. Hann varð Evrópumeistari með Þýskalandi undir stjórn Dags Sigurðssonar árið 2016 og vann brons á Ólympíuleikunum í Ríó síðar sama ár. Hann hefur þó glímt við mikil meiðsli á ferli sínum og sérstaklega er tekið fram á heimasíðu Kiel að Dissinger hafi snúið meiddur aftur til Kiel eftir þessi stórmót.

„Ég naut tímans hjá Kiel og það er ekki auðvelt að kveðja. Þetta er hins vegar nauðsynlegt fyrir feril minn. Ég vil þakka Kiel fyrir samvinnuna og ég mun sakna bæði stuðningsmannanna og liðsfélaga minna,“ er haft eftir Dissinger. Hann hefur verið orðaður við stórlið Vardar frá Makedóníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert