Kreppa ríkir í Garðabæ

Þórey Anna Ásgeirsdóttir og stöllur hennar í Stjörnunni sitja á …
Þórey Anna Ásgeirsdóttir og stöllur hennar í Stjörnunni sitja á botni Olís-deildarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir nærri hálfs mánaðar hlé vegna landsleikja og æfinga landsliðsins tóku leikmenn Olísdeildar kvenna í handknattleik upp þráðinn á nýjan leik á fimmtudagskvöldið þegar þriðja umferð hófst með viðureign KA/Þórs og ÍBV í KA-heimilinu.

Þrír síðustu leikir umferðarinnar voru háðir um nýliðna helgi og ekki síðar en í kvöld verður flautað til leiks í fjórðu umferð þegar Stjarnan og HK leiða saman hesta sína í TM-höllinni í Garðabæ.

Stjarnan og HK eru á athyglisverðum stað í deildinni. Eftir miklar breytingar á leikmannahópnum hefur ekki tekist að stilla saman strengina í upphafsleikjunum með þeim afleiðingum á Garðabæjarliðið rekur lestina af átta liðum deildarinnar með eitt stig. Um er að ræða harla nýja stöðu fyrir Stjörnuna sem áratugum saman hefur verið í fremstu röð handknattleiksliða hér á landi í kvennaflokki. Á laugardaginn fékk Stjarnan slæma útreið þegar Íslandsmeistarar Fram komu í heimsókn í TM-höllina í Garðabæ. Fram-liðið skoraði 47 mörk, þar af 27 í síðari hálfleik þegar Stjörnuliðið virtist hafa lagt niður vopnin. Rúm þrjú ár eru síðan lið fékk á sig fleiri en 40 mörk í kappleik í efstu deild kvenna eða síðan Afturelding tapaði fyrir ÍBV í Eyjum með 20 marka mun, 41:21.

Ljóst er að varnarleikur Stjörnunnar var og er e.t.v. í molum og sennilega sóknarleikurinn einnig sem er skýringin á að að Fram-liðið skoraði talsverðan fjölda af mörkum eftir hraðaupphlaup. Vissulega var skarð fyrir skildi hjá Stjörnunni að markvörðurinn Guðrún Ósk Maríasdóttir var ekki með í leiknum á laugardaginn gegn sínum gömlu félögum.

Eins og staðan er í Garðabæ um þessar mundir virðist sem Sebastian Alexandersson, þjálfari liðsins, sé nánast að byggja lið upp frá grunni. Að fá á sig 47 mörk í einum leik er svo sannarlega eitthvað sem má vinna út frá. Hvað sem hver segir er ljóst að það ríkir kreppa í meistaraflokksliði Stjörnunnar um þessar mundir. Kreppa sem má ekki standa lengi yfir ef ekki á illa að fara því nú standa fyrir dyrum tveir leikir hjá liðinu sem verða að vinnast ætli liðið að spyrna sér frá botninum, HK í kvöld og gegn KA/Þór nyrðra eftir viku.

3. umferðin í Olís-deild kvenna gerð upp og lið umferðarinnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert