Klóakleiðsla hafði óvænt sprungið í klefanum

Nökkvi Dan Elliðason hitar upp með félögum sínum í Arendal. …
Nökkvi Dan Elliðason hitar upp með félögum sínum í Arendal. Hann er annar frá hægri. Ljósmynd/Arendal

„Ferðalagið gekk í alla staði vel og leikmenn tyrkneska liðsins voru hinir almennilegustu. Því miður verður ekki það sama sagt um starfsmenn hallarinnar og liðsins,“ sagði Nökkvi Dan Elliðason, leikmaður norska handknattleiksliðsins ÖIF Arendal.

Hann og liðsfélagar urðu fyrir óskemmtilegri reynslu um liðna helgi þegar þeir sóttu tyrkneska liðið Selka Eskisehir heim til Eskisehir um liðna helgi í annarri umferð Áskorendakeppni Evrópu.

Ekki aðeins var dómgæslan í leiknum öll heimaliðinu í hag heldur beið leikmanna yfirgengilegur sóðaskapur og óþrifnaður í keppnishöllinni og í búningsklefa þeim sem liðinu var úthlutað á keppnisstað á leikdegi. Forráðamenn Arendal hafa kvartað til Handknattleikssambands Evrópu, EHF, vegna aðstöðunnar og dómgæslunnar.

„Í raun byrjaði þetta bara um leið og við komum í höllina á leikdegi og ætluðum í klefann þar sem við höfðum haft fataskipti í fyrir æfinguna deginum áður,“ sagði Nökkvi Dan í samtali við Morgunblaðið.

„Þá var okkur tilkynnt að við yrðum að vera í öðrum klefa, sem kom okkur á óvart þar sem klefinn sem við höfðum áður notað var laus. Við vorum samt ekkert að velta okkur upp úr því. Svo þegar upphitunin er búin og við komum í klefann okkar kom í ljós hvers vegna við vorum látnir skipta um klefa. Í þessum klefa hafði „óvart“ sprungið klóakleiðsla og gólfið allt í saurleifum og lyktin svo óbærileg að okkur lá við uppköstum við það eitt að sækja draslið okkar til þess að færa okkur í klefann sem við höfðum verið í á æfingunum,“ sagði Nökkvi Dan.

Þar með var ekki öll sagan sögð í keppnishöllinni á leikdegi vegna þess að í upphitun fyrir leikinn fundu leikmenn Arendal fljótlega að hendur þeirra og boltar voru fitug. Engu var líkara en menn væri með feiti eða olíu á höndunum. Sömu sögu var að segja af boltunum.

Sjá allt viðtalið við Nökkva Dan í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert