Guðjón Valur ekki í landsliðshópnum

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. AFP

Guðjón Valur Sigurðsson er ekki í íslenska landsliðshópnum í handknattleik fyrir leikina gegn Grikkjum og Tyrkjum í undankeppni EM sem Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari tilkynnti nú rétt í þessu.

Fram kom á fréttamannafundinum hjá HSÍ í dag að Guðjón gaf ekki kost á sér í þetta verkefni af persónulegum ástæðum en Guðjón Valur er markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi og er næstleikjahæstur á eftir Guðmundi Hrafnkelssyni.

Sigvaldi Guðjónsson, sem leikur með norska liðinu Elverum, er í hópnum sem og FH-ingurinn Ágúst Birgisson en hann er einn þriggja línumanna í landsliðshópnum. Þá vekur athygli að ekkert pláss er fyrir Janus Daða Smárason, leikmann danska liðsins Aalborg. Leikstjórnendur þrír sem voru valdir eru allir ungir að árum en það eru Selfyssingarnir Elvar Örn Jónsson og Haukur Þrastarson ásamt Gísla Þorgeiri Kristjánssyni úr liði Kiel.

Íslendingar mæta Grikkjum í Laugardalshöllinni 24. október og svo Tyrkjum í Ankara fjórum dögum síðar.

Landsliðshópurinn lítur þannig út:

Markverðir:
Aron Rafn Eðvarðsson, Hamburg
Björgvin Páll Gústavsson, Skjern
Viktor Gísli Hallgrímsson, Fram

Vinstri hornamenn:
Bjarki Már Elísson, Füchse Berlin
Stefán Rafn Sigurmannsson, Pick Szeged

Hægri hornamenn:
Arnór Þór Gunnarsson, Bergischer
Sigvaldi Guðjónsson, Elverum

Skyttur vinstra megin:
Aron Pálmarsson, Barcelona
Ólafur Andrés Guðmundsson, Kristianstad
Ólafur Gústafsson, KIF Kolding

Skyttur hægra megin:
Ómar Ingi Magnússon, Aalborg
Rúnar Kárason, Ribe Esbjerg

Leikstjórnendur:
Elvar Örn Jónsson, Selfossi
Gísli Þorgeir Kristjánsson, Kiel
Haukur Þrastarson, Selfossi

Línumenn:
Arnar Freyr Arnarsson, Kristianstad
Ágúst Birgisson, FH
Ýmir Örn Gíslason, Val

Varnarmaður:
Daníel Þór Ingason, Haukum

Miðasala á leik Íslands og Grikklands í undankeppni EM 2020 er hafin á Tix.is.

https://tix.is/is/event/6981/island-grikkland/

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert