Guðmundur tilkynnir landsliðshópinn í dag

Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari.
Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari karlalandsliðsins í handknattleik, tilkynnir í dag landsliðshópinn sem mætir Grikkjum og Tyrkjum í leikjum í undankeppni Evrópumótsins síðar í þessum mánuði.

Íslendingar taka á móti Grikkjum í Laugardalshöll miðvikudaginn 24. október og leika svo gegn Tyrkjum í Ankara sunnudaginn 28. október.

Þetta verða einu leikir íslenska landsliðsins í undankeppninni á þessu ári en þráðurinn verður svo tekinn upp í apríl á næsta ári. Þá hefja Íslendingar leik á heimavelli gegn Makedóníu. Tvö efstu liðin í riðlinum tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem haldin verður í þremur löndum, Noregi, Svíþjóð og Austurríki í janúar 2020.

Ísland verður með í úrslitakeppni HM sem haldin verður í Danmörku og Þýskalandi í janúar á næsta ári. Ísland leikur í B-riðli ásamt Spáni, Króatíu, Makedóníu, Barein og Japan og verður riðillinn spilaður í München í Þýskalandi.

mbl.is