Virði ákvörðun þeirra beggja

Theodór Sigurbjörnsson, ÍBV.
Theodór Sigurbjörnsson, ÍBV. mbl.is/Árni Sæberg

Theodór Sigurbjörnsson, hornamaður Íslands- og bikarmeistara ÍBV, gaf ekki kost á sér í íslenska landsliðið þegar eftir því var leitað á dögunum. Ástæðan mun vera persónulegs eðlis eins og hjá Guðjóni Val Sigurðssyni. Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari sagðist virða ákvörðun þeirra beggja og bætti við að dyr landsliðsins stæðu þeim opnar fyrir næstu verkefni í vetur ef betur stæði á.

„Ég virði ákvörðun þeirra beggja fullkomlega,“ sagði Guðmundur Þórður í samtali við mbl.is.

Guðmundur Þórður valdi í dag 18 leikmenn til þess að taka þátt í leikjum við Grikki hér heima 24. október og móti Tyrkjum í Ankara fjórum dögum síðar. Báðir leikirnir eru í B-riðli undankeppni Evrópumótsins 2020.

Athygli vakti við valið að Guðmundur valdi þrjá leikstjórnendur, Elvar Örn Jónsson og Hauk Þrastarson frá Selfossi auk Gísla Þorgeirs Kristjánssonar, leikmanns Kiel, en kaus að skilja Janus Daða Smárason, leikstjórnanda danska liðsins Aalborg, eftir. Gísli Þorgeir hefur glímt við meiðsli síðustu mánuði og lítið leikið með Kiel. Guðmundur segist hafa kynnt sér vel stöðuna á Gísla Þorgeiri, bæði með samtölum við Gísla sjálfan og þjálfara hans, Alfreð Gíslason.

„Þetta var alls ekki einföld ákvörðun en hún hefur verið tekin um að Gísli fái tækifæri í þessu verkefni. Hann lék með Kiel í síðasta leik liðsins gegn Leipzig. Þá var honum treyst í að koma inn á lokakafla leiksins þegar leikurinn var í járnum. Ég hef trú á að Gísli Þorgeir sé maður framtíðarinnar en síðan kemur það í ljós hvernig honum mun reiða af,“ sagði Guðmundur Þórður.

Guðmundur Þórður sagði marga leikmenn hafa komið til greina að þessu sinni. Fjölmennur hópur hafi komið til álita og lítill getumunur væri á milli margra. „Mér var vandi á höndum við valið. Um þessar mundir standa yfir kynslóðaskipti í landsliðinu og margir leikmenn eru ungir og lítt reyndir en að sama skapi efnilegir. Menn þroskast og þróast og það gerist mishratt. Þess vegna þarf að fylgjast afar grannt með leikmönnum og vanda sig eins og kostur er við valið liðsins á hverjum tíma.“

Ásgeir Örn Hallgrímsson var ekki inn í myndinn hjá landsliðsþjálfaranum að þessu sinni en hann hefur ekki leikið með landsliðinu síðan Guðmundur Þórður tók við þjálfun þess í febrúar. Meiðsli komu í veg fyrir þátttöku Ásgeirs með landsliðinu í vor en nú er kappinn orðinn heill heilsu.

„Ásgeir kom til greina eins og margir aðrir. Ég er viss um að hann væri tilbúinn að gefa kost á sér í landsliðið ef eftir því væri leitað,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert