Fram sigraði Akureyri í háspennuleik

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson spilaði vel fyrir Fram.
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson spilaði vel fyrir Fram. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Fram hafði betur gegn Akureyri í 5. umferð Olísdeildar karla í handbolta í dag. Lokatölur eftir æsispennandi lokasprett urðu 26:25, Fram í vil. Akureyri gat jafnað á lokasekúndunum en síðasta sókn liðsins rann út í sandinn. 

Framarar byrjuðu mun betur og var staðan 8:3 eftir tólf mínútna leik. Þá tóku Akureyringar við sér og minnkuðu muninn hægt og rólega og var staðan í hálfleik 14:13. Fram hélt áfram að vera skrefi á undan þangað til fimm mínútum fyrir leikslok er Ihor Kopyshynskyi kom Akureyri í 23:22. 

Fram var hins vegar sterkara í blálokin og tryggði sér góðan sigur. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var markahæstur hjá Fram með sjö mörk og Aron Gauti Óskarsson skoraði fjögur. Ihor Kopyshynskyi skoraði sex fyrir Akureyri og Gunnar Valdimar Johsen bætti við fimm. 

Fram fór upp í fimm stig og sjötta sæti deildarinnar með sigrinum en Akureyri er í tíunda sæti með tvö stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert