Þeir settu einhvern svindlkall í markið

Erlingur Richardsson og Kári Kristján Kristjánsson.
Erlingur Richardsson og Kári Kristján Kristjánsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kári Kristján Kristjánsson, fyrirliði Íslandsmeistara ÍBV, hafði margt og mikið að segja eftir að liðið féll úr leik gegn stórliði PAUC frá Frakklandi í EHF-bikarnum í handknattleik dag. Franska liðið er virkilega öflugt og sýndi mátt sinn vel í dag þegar liðið vann ellefu marka sigur á ÍBV. 

„Við unnum heimavinnuna okkar vel, vil ég meina, við settum helvíti mikið púður í þetta og greindum hvern einasta gæja helvíti mikið. Við kíktum á mikið af leikjum hjá þeim í deildinni, þar sem þeir voru ekki að skjóta sérstaklega mikið á markið og gerðu það ekki heima í fyrri leiknum. Það var annað uppi á teningnum í dag, við héldum þessu í leik í dag fram til að það voru tíu mínútur eftir, þetta var ennþá leikur.

X-factorinn hjá þeim var þessi miðjumaður, hann var geggjaður, hann verður pottþétt eitthvað í framtíðinni og er orðinn nú þegar mjög virtur hérna,“ sagði Kári Kristján en þar átti hann við Aymeric Minne sem er ein helsta vonarstjarna Frakka, menn tala um að þar sé næsti Nikola Karabatic á ferðinni, en Minne átti frábæran leik í dag. 

Anders Lynge kom inn í mark heimamanna eftir fimmtán mínútna leik og fannst Kára það vera vendipunktur leiksins.

„Þeir skiptu einhverjum svindlkalli þarna inn á í markið sem varði helvíti mikið. Við vorum að fara með svolítið mikið af færum, en tuttugu mörk á okkur í fyrri hálfleik er helvíti mikið.“

Þetta eru allt atvinnumenn

Martin Larsen, danska hægri skyttan í liði PAUC fór ekki með til Vestmannaeyja þar sem hann veiktist við komuna til Íslands en hann var virkilega góður á upphafsmínútunum og setti ófá mörkin.

„Hann var að gera þessa hluti sem við vorum búnir að leggja upp með, en málið var bara það að þessi 44-gæi (Aymeric Minne) var mjög fljótur á löppunum og dró í sig menn, oft annan mann og gerði vinnuna auðveldari fyrir bakverðina hjá þeim. Við enduðum í því að yfirvinna og hjálpa meira en eðlilegt þykir hjá okkur. Það gekk allt upp hjá þeim í fyrri hálfleik, sérstaklega sóknarlega. Fimmtán mörk hjá okkur í fyrri hálfleik er drullufínt, við erum samt að missa fullt af færum. Það dró úr okkur tennurnar þegar hann varði svona svakalega frá okkur í markinu.“

Það er oft talað um að góð lið sýni andstæðingum sínum alla veikleika þeirra, geta Eyjamenn þá ekki lært margt af mistökum sínum í þessum leik?

„Við verðum að leggja spilin á borðið, ef við tökum budget-ið hjá ÍBV og budget-ið hjá þessu liði þá er það ekkert til að bera saman. Þetta eru allt atvinnumenn og skrattinn hafi það að þeir geti ekki verið eins og menn á móti bandalaginu, en ég er stoltur af því að við veittum þeim alvöru mótspyrnu. Þetta er alvöru lið og frábær höll, þeir eru ekkert að grínast, þetta er félag sem ætlar sér stóra hluti í náinni framtíð í Frakklandi og handbolti er í forgrunni, sem er frábært,“ sagði Kári að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert