Vorum fljótir aftur á beinu brautina

Gunnar Magnússon ræðir við sína menn.
Gunnar Magnússon ræðir við sína menn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er ánægður með hvernig við mættum í þetta verkefni, við mættum tilbúnir,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is eftir sannfærandi 31:22-sigur á Gróttu í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. 

„Við vissum að Gróttuliðið er drulluerfitt og ef við mætum ekki klárir í þetta þá refsa þeir. Ég er ánægður með hugarfarið, við mættum eins og fagmenn hérna og gerðum þetta vel. Við náðum tökum á leiknum og héldum þeim út allan tímann.“

Gróttumenn minnkuðu muninn í þrjú mörk í síðari hálfleik með þremur mörkum í röð en þá sögðu Haukar hingað og ekki lengra. 

„Ég sagði við strákana í hálfleik að um leið og við slökum á þá refsa þeir. Það kom smá hiksti í stuttan tíma, en við vorum fljótir aftur á beinu brautina og vorum á fullu í 60 mínútur.“

Haukar jöfnuðu toppliðin Val, Selfoss og FH á stigum með sigrinum. 

„Við verðum að halda áfram að safna stigum og koma inn í hverja viku og sýna frammistöðu eins í dag. Ef við erum ekki 100 prósent þá töpum við stigum. Við verðum að halda áfram að bæta okkur og berjast fyrir stigunum. Þetta er langhlaup,“ sagði Gunnar Magnússon. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert