Allir hefðu sagt að við værum þegar úr leik

Guðjón Valur Sigurðsson fagnar einu af fimm mörkum sínum gegn …
Guðjón Valur Sigurðsson fagnar einu af fimm mörkum sínum gegn Kiel. Ljósmynd/Rhein-Neckar Löwen.

„Ef við hefðum tapað hérna líka þá hefðu allir sagt að við værum þegar úr leik. Það er bull að lýsa slíku yfir strax en þessi sigur gefur okkur mikið sjálfstraust fyrir framhaldið,“ sagði Alfreð Gíslason eftir að hafa stýrt Kiel til afar dýrmæts sigurs gegn Rhein-Neckar Löwen, 27:24, á útivelli í Mannheim í þýsku 1. deildinni handbolta.

Þetta var fyrsta tap Löwen í deildinni á þessu tímabili en liðið er með 13 stig eftir átta leiki og á tvo leiki til góða á Kiel sem er með 16 stig í 3. sæti. Flensburg og Magdeburg eru efst með 18 stig og hefur Flensburg unnið alla níu leiki sína til þessa.

Eftir vonbrigðatímabil í fyrra, þar sem Kiel endaði í 5. sæti, sjö stigum á eftir meisturunum í Flensburg, hefði liðið illa mátt við tapi í gær eins og Alfreð kom inn á. „Við vissum að þetta yrði gríðarlega erfitt en við byrjuðum vel. Síðan komu kaflar þar sem við áttum í vandræðum en við byrjuðum vel í seinni hálfleiknum,“ sagði Alfreð, en Kiel skoraði fimm mörk gegn engu í upphafi seinni hálfleiks, og komst í 16:12. Markvörðurinn Niklas Landin átti svo stóran þátt í að halda aftur af Löwen, fyrir aftan sterka vörn Kiel.

„Það var mikilvægt að skora fimm í röð strax eftir hléið, við fengum góða markvörslu og skoruðum jafnt og þétt,“ sagði Alfreð.

Guðjón Valur Sigurðsson var meðal markahæstu manna í leiknum og skoraði 5 mörk fyrir Löwen, og Alexander Petersson skoraði 2. Norðmaðurinn Harald Reinkind var markahæstur hjá Kiel með 6 mörk úr jafnmörgum tilraunum, en Gísli Þorgeir Kristjánsson var ekki á meðal markaskorara liðsins.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert