Haukur og Dagur á meðal vonarstjarna Evrópu

Dagur Gautason og Haukur Þrastarson.
Dagur Gautason og Haukur Þrastarson. Ljósmynd/HSÍ

Selfyssingurinn Haukur Þrastarson og KA-maðurinn Dagur Gautason eru á meðal þeirra sem gætu slegið í gegn á EM í handbolta árið 2020 samkvæmt heimasíðu mótsins. Í grein á síðunni er farið yfir þá 20 leikmenn sem geta slegið í gegn á mótinu sem haldið er í Svíþjóð, Noregi og Austurríki. 

Báðir voru þeir í stóru hlutverki er Ísland hafnað í öðru sæti á EM 18 ára og yngri í sumar og spilaði Haukur sína fyrstu A-landsleiki í sumar, aðeins 16 ára gamall. Hann var valinn besti leikmaður EM og Dagur var valinn í úrvalslið mótsins. 

„Ísland kom öllum á óvart með að hafna í öðru sæti í sumar og Haukur sýndi að hann er með ótrúlega hæfileika. Hann var valinn mikilvægasti leikmaður mótsins og er hann búinn að skora 16 mörk fyrir Selfoss í EHF-bikarnum á tímabilinu,“ segir í umfjöllun heimasíðunnar um Hauk. 

„Annar leikmaður sem var í lykilhlutverki á EM. Vinstri hornamaðurinn Dagur Gautason. Hann komst í úrvalslið mótsins og skoraði grimmt. Það var snjallt hjá KA að gefa honum nýjan tveggja ára samning í sumar á meðan Evrópa fylgdist með honum,“ segir í umfjöllun um Dag. 

Hægt er að sjá greinina í heild sinni með því að smella hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert