Framtíðin í óvissu hjá Vigni

Vignir Svavarsson mun yfirgefa Holstebro þegar samningur hans rennur út …
Vignir Svavarsson mun yfirgefa Holstebro þegar samningur hans rennur út eftir tímabilið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Handknattleikskappinn Vignir Svavarsson verður ekki áfram hjá danska úrvalsdeildarfélaginu Holstebro á næstu leiktíð en þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í dag. Vignir hefur leikið með danska liðinu frá árinu 2016 og varð hann bikarmeistari með liðinu á síðustu leiktíð. 

„Ég átti von á því að tími minn hjá félaginu væri senn á enda,“ sagði Vignir í samtali við heimasíðu félagsins. „Ég hef verið mikið meiddur, undanfarna sex mánuði, og það er aldrei gaman að þurfa horfa á liðsfélaga sína á hliðarlínunni. Það er gott að fá þetta á hreint og ég skil ákvörðun félagsins mjög vel.“

„Ég hef ekki áhuga á því að snúa mér að þjálfun þegar ferlinum lýkur. Ég hef aldrei haft mikinn áhuga á þjálfun en það er vissulega skrítið að hugsa til þess að maður gæti verið að pakka handboltanum niður í tösku á næstu árum. Það er hins vegar alltaf eitthvað annað sem tekur við og ég hlakka til framtíðarinnar,“ sagði Vignir en hann hefur ekki enn þá gefið það út hvort hann muni leggja skóna á hilluna þegar samningur hans við Holstebro rennur út.

Holstebro er í fimmta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 11 stig eftir fyrstu átta umferðirnar, 3 stigum minna en topplið GOG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert