Haukasigur í sveiflukenndum leik

Ásgeir Örn Hallgrímsson sækir að marki Stjörnumanna á Ásvöllum í …
Ásgeir Örn Hallgrímsson sækir að marki Stjörnumanna á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Hari

Haukar unnu sannfærandi 31:27-sigur á Stjörnunni í sveiflukenndum leik í 6. umferð Olísdeildar karla í handknattleik á Ásvöllum í kvöld.

Fyrri hálfleikur fór afar rólega af stað og var staðan 5:4, Haukum í vil, þegar fimmtán mínútur voru liðnar af leiknum. Haukar náðu þriggja marka forskoti á 24. mínútu og þá tók Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, leikhlé og það marborgaði sig. Stjörnumenn náðu að jafna metin í 13:13 en það var Daníel Þór Ingason, leikmaður Hauka, sem skoraði síðasta mark hálfleiksins og staðan því 14:13 í hálfleik.

Stjörnumenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og höfðu Garðbæingar fjögurra marka forskot þegar 15. mínútur voru eftir af leiknum. Þá tók Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, leikhlé og eftir það gerðu Haukar áhlaup og jöfnuðu metin. Haukar komust svo yfir þegar sex mínútur voru til leiksloka og eftir það var leikurinn auðveldur fyrir Hafnfirðinga sem unnu að lokum sannfærandi sigur.

Atli Már Báruson var atkvæðamestur í liði Hauka með 13 mörk en Haukar eru komnir í annað sæti deildarinnar með 9 stig, jafnmörg stig og Selfoss en Selfyssingar eiga leik til góða. Hjá Stjörnunni var Egill Magnússon markahæstur með 9 mörk en Stjarnan er sem fyrr í neðsta sæti deildarinnar með 2 stig.

Haukar 31:27 Stjarnan opna loka
60. mín. Leó Snær Pétursson (Stjarnan) skýtur framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert