Risið úr öskustónni

Martha Hermannsdóttir er markahæst í Olís-deildinni
Martha Hermannsdóttir er markahæst í Olís-deildinni Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Haukar risu úr öskustónni í fimmtu umferð Olís-deildar sem lauk í fyrrakvöld með þremur leikjum.

Leikmönnum Fram halda engin bönd frekar en fyrr og lið KA/Þórs heldur áfram að sanna það fyrir sjálfu sér en þó mest öðrum að það á svo sannarlega tilverurétt í deildinni, nokkuð sem nýliðum hefur oft reynst erfitt.

Vandræði halda áfram að gera vart við sig í herbúðum Selfoss og Stjörnunnar eftir sigur síðarnefnda liðsins í síðustu umferð á HK, þá lá Stjörnuliðið fyrir hinum nýliðunum í heimsókn sinni til Akureyrar á þriðjudagskvöldið.

Leikmenn Hauka sýndu loks hvers þeir eru megnugir þegar þeir tóku á móti ÍBV í Schenker-höllinni á Ásvöllum á þriðjudagskvöld eftir þrjá tapleiki í röð. Varnarleikur liðsins var framúrskarandi, ekki síst í fyrri hálfleik, og Saga Sif Gísladóttir átti stórleik í markinu. Segja má að úrslit leiksins hafi nánast verið ráðin eftir fyrri hálfleikinn þegar Haukar gengu af leikvelli að honum loknum með tíu marka forskot, 16:6. Þótt aðeins hafi hýrnað yfir leikmönnum ÍBV í síðari hálfleik og þeim tekist að stöðva undanhaldið varð tap í leiknum ekki umflúið og Haukar unnu kærkominn og öruggan sigur, 29:20. Haukar sendu sterk skilaboð með sigrinum eftir magalendingu í síðari hálfleik gegn Fram í umferðinni á undan þar sem leikmenn liðsins misstu algjörlega sjálfstraustið. Í ljósi þeirrar staðreyndar var sigur Hauka enn athyglisverðari og ljóst að vel hefur verið unnið innan herbúða liðsins í framhaldinu.

Vonbrigði til þessa

ÍBV-liðið er hins vegar ákveðin vonbrigði það sem af er. Reikna mátti með meiru af liðinu, sem á að hafa meiri reynslu innan sinna raða en að fá slíkan skell sem liðið fékk í fyrri hálfleik í heimsókn sinni til Hauka. Næsta viðureign ÍBV verður á sunnudaginn þegar Íslands- og bikarmeistarar Fram verða sóttir heim í Safamýri. Þar mætast fyrrverandi samherjar í ógnarsterku liði Vals á árum áður: Stefán Arnarson, þjálfari Fram, og Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV, sem jafnframt eru þjálfarar U20 ára landsliðsins. Fróðlegt verður að sjá hvernig leikurinn þróast, ekki síst vegna þess að Hrafnhildi hefur á stundum tekist að klekkja á Stefáni og Framliðinu á síðustu árum.

Sjá alla greinina um 5. umferðina í Olís-deildinni og úrvalslið umferðarinnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert