Alveg sama hvað ég bið strákana um

Patrekur Jóhannesson var mjög sáttur með sigur sinna manna gegn …
Patrekur Jóhannesson var mjög sáttur með sigur sinna manna gegn FH í kvöld. mbl.is/Hari

„Ég er mjög ánægður með strákana að klára þennan leik. Við vorum ólíkir sjálfum okkur í fyrri hálfleik og það var því afar sætt að ná að klára þetta í restina,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfyssinga, í samtali við mbl.is eftir 30:27-sigur liðsins gegn FH í 6. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.

„Ég vil ekki tala um einhver þreytumerki á liðinu en mér fannst við mjög þungir á löppunum í fyrri hálfleik. Að sama skapi er mjög sterkt að vinna FH á útivelli, vitandi það, að við vorum ekki að spila okkar besta leik. Ég verð að hrósa mínum mönnum, þeir stóðu sig mjög vel og sýndu mikinn karakter í þessum leik.“

Patrekur prófaði nokkrar varnarútfærslur í leiknum í kvöld en þjálfarinn telur að góður varnarleikur hafi skilað sigrinum í kvöld.

„Það er alveg sama hvað ég bið þessa stráka um að gera, þeir gera það og gera það vel. Ég prófaði nokkrar útfærslur í varnarleiknum og strákarnir stóðu sig vel í öllum þeirra. Þeir fara eftir því sem ég bið þá um og þeir virðast hafa trú á því sem ég segi við þá og ég þakka þeim kærlega fyrir það.“

Selfoss er á toppnum eftir sex leiki en Patrekur er ekki að stressa sig of mikið á því.

„Það eru bara sex leikir búnir af deildinni og það er nóg eftir. Strákarnir fá gott frí fram á þriðjudag og síðan kemur smá törn hjá okkur þannig að það er nóg eftir af þessu en við erum í góðu standi og eigum að vera fullfærir um geta tekist á við verkefnin framundan. Það er alltaf gaman að vera á toppnum en það telur lítið á þessum tímapunkti,“ sagði Patrekur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert