Selfoss marði sigur gegn FH

FH fær Selfoss í heimsókn í Olísdeild karla í dag.
FH fær Selfoss í heimsókn í Olísdeild karla í dag. Haraldur Jónasson/Hari

Elvar Örn Jónsson, leikmaður Selfyssinga, steig upp í seinni hálfleik þegar liðið vann 30:27-sigur gegn FH í háspennuleik í 6. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.

Það voru Selfyssingar sem skoruðu fyrsta mark leiksins en eftir sex mínútna leik var FH komið yfir, 3:2. Hafnfirðingar létu kné fylgja kviði og náðu mest fimm marka forskoti, 10:5 og hefðu getað náð sex marka forskoti á 16. mínútu en Pawel Kiepulski varði meistaralega frá Birgi Má Birgissyni eftir hraðaupphlaup. Selfyssingar hresstust við þetta og náðu að jafna metin á 29. mínútu en það var Birgir Már, leikmaður FH, sem skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og staðan því 14:13 í hálfleik.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi seinni hálfleiks og liðin skiptust á að vera með forystu í leiknum. Það var ekki fyrr en á 52. mínútu sem Árni Steinn Steinþórsson kom tveimur mörkum yfir og Halldór Jóhann, þjálfari Hafnfirðinga, tók leikhlé. Það skilaði sér því FH-ingar jöfnuðu metin i 25:25. Staðan var jöfn, 26:26 þegar Elvar Örn Jónsson kom Selfyssingum yfir og hann skoraði svo aftur, stuttu seinni og munurinn orðinn tvö mörk þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Hafnfirðingar náðu ekki að minnka þann mun og sigur Selfoss staðreynd.

Birgir Már Birgisson var markahæstur í liði Hafnfirðinga með 9 mörk en hjá Selfyssingum var Elvar Örn atkvæðamestur með 7 mörk. Selfyssingar eru áfram taplausir í deildinni og eru með 11 stig á toppi deildarinnar eftir fyrstu sex umferðirnar en FH er í fimmta sæti deildarinnar með 7 stig, líkt og Valsmenn, en FH á leik til góða á Selfoss, Hauka, Aftureldingu og Val.

FH 27:30 Selfoss opna loka
60. mín. Árni Steinn Steinþórsson (Selfoss) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert