Á maður ekki að svara þessu svona?

Ester Óskarsdóttir átti fínan leik fyrir ÍBV.
Ester Óskarsdóttir átti fínan leik fyrir ÍBV. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Ester Óskarsdóttir skoraði fjögur mörk fyrir ÍBV í 27:23-sigri á Fram í Olísdeildinni í handbolta í dag. Með sigrinum varð ÍBV fyrst allra til að vinna meistarana á tímabilinu. Vörn ÍBV var afar góð í leiknum og þar fyrir aftan varði Guðný Jenný Ásmundsdóttir 20 skot. 

„Þetta var hörkuleikur tveggja góðra liða, eins og við var að búast. Vörnin hjá okkur skilaði þessu svo í lokin, þar sem sóknarleikurinn var ekki upp á tíu eins og oft áður í vetur. Vörn og markvarsla kláraði þetta í dag."

ÍBV var yfir allan leikinn, að undanskildum stuttum kafla í síðari hálfleik. 

„Við vissum að Fram kæmi með áhlaup, það er besta liðið á landinu segja allir. Það er ekki hægt að gefast upp á móti þessu liði."

Eyjakonur töpuðu stórt á móti Haukum í síðustu umferð og er Ester ánægð með svarið í dag. 

„Á maður ekki bara að svara þessu svona? Við verðum bara að ná í stöðuleika núna og prófa að vinna Fram í lok tímabilsins líka," sagði Ester glöð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert