Þær eru ekki með nein tök á okkur

Steinunn Björnsdóttir á siglingu.
Steinunn Björnsdóttir á siglingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við töpuðum þessum leik þar sem við gerðum mikið af mistökum. Jenný átti stórleik og ég veit ekki hvað við töpuðum mörgum boltum í seinni hálfleik," sagði Steinunn Björnsdóttir, línumaður Fram, við mbl.is eftir 23:27-tap fyrir ÍBV í Framhúsinu í dag. 

ÍBV var yfir nánast allan leikinn, en Fram komst yfir um miðjan síðari hálfleik. ÍBV snéri því hins vegar snöggt við og vann að lokum. 

„Mér fannst mómentið vera með okkur um miðbik seinni hálfleiks en við gripum þetta ekki og gáfum þeim þetta. Ég hélt við værum að fara að ná þessu en svo missum við boltann ótrúlega oft og vorum óskynsamar að keyra upp. Það var eins og við ætluðum að skora tvö mörk í hverri sókn."

ÍBV varð einnig fyrsta liðið til að vinna Fram í deildinni á síðustu leiktíð. 

„Þetta er hörkulið og ég er ekki að taka neitt af þeim. Þetta er stemningslið. Við unnum þær í úrslitakeppninni í fyrra, svo þær eru ekki með nein tök á okkur."

Hún segir Framliðið þurfa að spila betur en í síðustu tveimur leikjum. 

„Við áttum ekki sérstaklega góðan leik í síðustu umferð og æfingarnar eru ekki búnar að vera nógu góðar, svo við þurfum að rífa okkur í gang aftur og taka næsta leik," sagði Steinunn. 

mbl.is