Erum einum klassa neðar en þau bestu

Sebastian Alexandersson ræðir við sitt lið.
Sebastian Alexandersson ræðir við sitt lið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Okkar sóknarleikur var ekki nógu góður,“ svaraði Sebastian Alexandersson, þjálfari Stjörnunnar, um hvað hafi vantað í hans lið í 18:23-tapi fyrir Val í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld. 

„Sóknarleikurinn er ekki nógu góður því við erum með marga leikmenn sem eru ryðgaðir. Sumir eru að koma eftir tveggja, þriggja, fjögurra og jafnvel fimm ára pásu og þeir leikmenn þurfa meiri tíma til að spila sig saman.“

Sebastian var ekki ánægður með sóknarleikinn, en hann segir varnarleikinn hafa verið til fyrirmyndar. 

„Varnarleikurinn var frábær. Mér fannst það til fyrirmyndar hvernig við spiluðum vörn og þetta er ekki smá sem liðið er í góðu líkamlegu ásigkomulagi. Ég get ekki séð mörg lið sem þora að spila þennan varnarleik eins og við. Þegar við náum sóknarleiknum í lag erum við samkeppnishæf við bestu lið landsins en eins og er erum við einum klassa neðar.“

Staðan var jöfn þegar tíu mínútur voru til leiksloka, en Valskonur voru betri á lokakaflanum. 

„Íris varði mikilvæga bolta síðustu tíu. Við fengum dauðafæri eftir dauðafæri sem hún varði, það er það sem skilur liðin að. Ef við hefðum skorað úr einhverju af þeim síðustu tíu, hefði leikurinn verið meira spennandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert