Hoppa á vegg ef hann biður um það

Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik með landsliðinu.
Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik með landsliðinu. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Hinn 19 ára gamli Gísli Þorgeir Kristjánsson verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu í handknattleik annað kvöld þegar Íslendingar taka á móti Grikkjum í fyrsta leik sínum í undankeppni Evrópumótsins og á sunnudaginn mætir Ísland liði Tyrkja á útivelli.

Gísli Þorgeir er einn af þremur kornungum leikstjórnendum í íslenska landsliðinu en Selfyssingarnir Elvar Örn Jónsson og Haukur Þrastarson deila leikstjórnendahlutverkinu með Gísla Þorgeiri. Mbl.is hitti Gísla fyrir æfingu landsliðsins í dag en Hafnfirðingurinn ungi yfirgaf FH í vor og gekk í raðir þýska stórliðsins Kiel undir stjórn Alfreðs Gíslasonar.

Ætlum okkur á EM

„Ég ætla að setja þá kröfu á okkur að við vinnum þessi lið burtséð frá einhverju vanmati sem er alls ekki til staðar hjá okkur. Miðað við okkar lið þar sem við erum með toppleikmann í hverri stöðu þá eigum við að vera með sterkara lið heldur en Grikkland og Tyrkland. Við vitum hvað við viljum og við ætlum okkur að komast á EM 2020. Þessir tveir leikir eru fyrsta skrefið í átt að því og það þýðir ekkert annað en taka þetta verkefni mjög alvarlega. Ég vona bara að Höllin verði full á morgun. Það er ekkert sjálfgefið að við vinnum Grikkina svo við þurfum öflugan stuðning. Ég viðurkenni alveg að ég veit ekki mikið um þetta gríska lið en ef við spilum okkar leik þá hef ég engar áhyggjur,“ sagði Gísli Þorgeir.

„Það eru virkilega spennandi tímar með landsliðinu og það er mikill heiður að vera í því. Það sem ég hef séð á æfingum hefur verið frábært og ég er mjög spenntur að sjá hvernig þetta kemur út í þessum tveimur leikjum. Þótt það sé samkeppni hjá mér, Hauki og Elvari þá vinnum við vel saman og styðjum hver annan.“

Er ekki kominn með skotkraftinn sem ég var með

Gísli Þorgeir hefur fengið nokkrar spilmínútur í flestum leikjum Kiel á leiktíðinni og hann hefur fulla trú á að mínútum eigi eftir að fjölga þegar á tímabilið líður.

„Ég kann virkilega vel mig hjá Kiel. Ég er að fá að spila nokkrar mínútur í hverjum leik. Meiðslin sem ég varð fyrir í leikjunum á móti ÍBV í úrslitakeppninni í vor settu smá strik í reikninginn. Verkurinn í öxlinni er horfinn en ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá er ég ekki enn þá kominn með skotkraftinn sem ég var með áður en ég meiddist.

Ég náði engum æfingaleikjum fyrir tímabilið og missti nánast af öllu undirbúningstímabilinu og fyrstu leikjunum á leiktíðinni. Ég er að æfa á hverjum degi með heimsklassaleikmönnum og ég lít á hverja æfingu eins og ég sé að spila. Mér finnst ég hafa staðið mig ansi vel ef ég segi sjálfur frá og nú er ég alltaf að fá fleiri spilmínútur. Ég sé fyrir mér að sú þróun haldi áfram,“ sagði Gísli Þorgeir.

Gísli Þorgeir í búningi Kiel.
Gísli Þorgeir í búningi Kiel. Ljósmynd/Kiel

Spurður hvort Alfreð sé harður húsbóndi segir Gísli Þorgeir;

„Maður kemst ekki upp með neitt hálfkák hjá Alla. Maður verður að hlusta á hann, taka við leiðbeiningum hans og hoppa nánast á vegg ef hann biður um það. Mér líkar þetta mjög vel og við þetta andrúmsloft,“ sagði Gísli.

Kiel er í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliðunum Magdeburg og Flensburg.

„Ég tel að við getum vel blandað okkur í baráttuna um titilinn. Við erum búnir að vinna sjö leiki í röð og erum búnir að spila á þremur erfiðustu útivöllunum. Við erum á ótrúlegu flottu róli núna, síðan er það EHF-keppnin sem við ætlum að gera góða hluti,“ sagði Gísli Þorgeir en Kiel mætir norska liðinu Drammen í 3. umferð EHF-keppninnar.

mbl.is