Rúllað yfir Grikki í síðari hálfleik

Arnór Þór Gunnarsson býr sig undir að skjóta á mark …
Arnór Þór Gunnarsson býr sig undir að skjóta á mark Grikkja í Laugardalshöllinni í kvöld. mbl.is/Eggert

Íslenska landsliðið í handknattleik karla vann stórsigur  á því gríska, 35:21, í fyrsta leik undankeppni Evrópumótsins í Laugardalshöll í kvöld. Eftir erfiðan fyrri hálfleik þá rúllaði íslenska liðið yfir það gríska í síðari hálfleik og vann stórsigur með frábærum sóknarleik. 

Fyrri hálfleikur, þá sérstaklega fyrstu 20 mínúturnar voru ekki góðar hjá íslenska liðinu. Nokkuð var um einföld mistök í sóknarleiknum en fyrst og fremst var vörn og markvarsla lengst af í molum gegn frekar rólegum sóknarmönnum Grikkja sem tókst að halda mjög niðri hraða leiksins.

Eftir að Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, tók leikhlé eftir um 20 mínútur þá skánaði leikur liðsins aðeins, einkum sóknarleikurinn. Um leið skildu leiðir og Ísland var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17:13.

Strax í byrjun síðari hálfleiks jók íslenska liðið muninn. Varnarleikurinn var betri og Aron Rafn Eðvarðsson vann sig jafnt og þétt inn í leikinn í markinu. Grikkir voru komnir sjö mörkum undir eftir aðeins rúmar þrjár mínútur. Í framhaldinu tók við einstefna af hálfu íslenska liðsins og gæðamunurinn varð greinilegri með hverri mínútunni sem leið.

Um miðjan seinni var munurinn orðinn tíu mörk, 28:18, íslenska liðinu í vil. Grikkir lögðu árar í bát enda við ofurefli að etja. Munurinn varð mestur 15 mörk þegar dró nærri leikslokum.

Sóknarleikur íslenska liðsins var frábær í síðari hálfleik. Leikmönnum brást vart bogalistinn í skoti fyrstu 20 mínúturnar. Varnarleikurinn var einnig betri en í fyrri hálfleik auk þess sem markvarslan batnaði til muna og Aron Rafn stóð sig vel í markinu.

Bjarki Már Elísson nýtti tækifæri sitt í síðari hálfleik og skoraði sex mörk í sjö skotum. Hann var markahæstur í íslenska liðinu. Arnór Þór Gunnarsson, Rúnar Kárason og Arnar Freyr Arnarsson voru næstir með fimm mörk hver.

Allir leikmennirnir 16 sem voru á leikskýrslu komu við sögu. Þeir fengu að vísi mislangan tíma til þess að láta ljós sitt skína en náðu nánast allir að setja mark sitt á leikinn. 

Grikkir eiga margt ólært í íþróttinni auk þess sem líkamlegir burðir flesta þeirra eru ekki á pari við flesta leikmenn íslenska landsliðsins. Sóknarleikurinn var fremur hægur og fyrirséður. Varnarleikurinn hálf skipulagslaus og agalítill enda var mikið um klaufabrot og peysutog að þeirra hálfu sem gerði að verkum að þeir voru utan vallar í 18 mínútur. 

Yfirhöfuð var þetta afar góð byrjun á undankeppninni hjá íslenska landsliðinu sem hefur á að skipa talsverðum hópi leikmanna sem eru lítt reyndir. Næsta verkefni er að fylgja þessum leik eftir í Ankara á sunnudaginn gegn Tyrkjum sem veita munu meiri mótspyrnu en Grikkir gerðu í kvöld. Það verður verkefni Guðmundar Þórðar Guðmundssonar og aðstoðarmanna að stilla leikmenn inn á krefjandi leik á afar erfiðum útivelli gegn leikmönnum og liði sem íslenskir handknattleiksmenn þekkja ekki mikið til. 

Tyrkir og Makedóníumen, sem eru með Íslendingum og Grikkjum í þriðja riðli undankeppni EM, mætast í Skopje á morgun. 

Ómar Ingi Magnússon lætur skotið ríða af í leiknum gegn …
Ómar Ingi Magnússon lætur skotið ríða af í leiknum gegn Grikkjunum. mbl.is/Eggert
Ísland 35:21 Grikkland opna loka
60. mín. Ísland tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert