Mikill fórnarkostnaður fylgdi Katarferðinni

Bjarki Már Elísson í leik með Berlínarliðinu.
Bjarki Már Elísson í leik með Berlínarliðinu. Ljósmynd/Füchse Berlin

Forráðamenn Füchse Berlin, eins besta handboltaliðs Þýskalalands sem Bjarki Már Elísson leikur með, mega hafa sig alla við að tefla fram liði í einni sterkustu deild heims þessa dagana. 

Berlínarrefirnir töpuðu í gær á heimavelli gegn Stuttgart í bundesligunni og hefðu það talist óvænt úrslit í ljósi þess að Füchse var í 6. sæti deildarinnar fyrir leikinn en Stuttgart í 12. sæti. 

En þar með er ekki öll sagan sögð. Hjá Füchse Berlin eru nú níu leikmenn sem ekki eru leikfærir vegna meiðsla. Er það með nokkrum ólíkindum þar sem iðulega eru þýsku liðin með um átján leikmenn í leikmannahópi sínum. 

Berlínarliðið var í toppbaráttunni á síðasta tímabili og byrjaði nokkuð vel á þessu tímabili. Í síðasta mánuði tók liðið þátt í heimsmeistarakeppni félagsliða í Katar og það tók heldur betur sinn toll. 

Á einni viku meiddust fimm leikmenn liðsins. Einn í síðasta leik áður en farið var til Katar og fjórir á HM félagsliða í Katar. 

Þegar Füchse Berlín flaug heim og beint í útileik gegn Rhein Neckar Löwen, einu albesta liði Þýskalands, voru fimm leikmenn til viðbótar komnir á sjúkralistann og alls níu á þeim lista. 

Bjarki Már skoraði 1 mark fyrir Füchse í gær en danski Íslendingurinn, Hans Lindberg, var bestur í Berlínarliðinu. 

Gömlu þýsku landsliðsmennirnir Johannes Bitter og Michael Kraus gerðu gæfumuninn fyrir Stuttgart. Bitter lokaði marki Stuttgart í fyrri hálfleik. Varði í upphafi leiks þrjú hraðaupphlaup og eitt vítakast. Kraus skoraði 11 mörk úr 14 skotum. Hann gersamlega lék sér að félaga sínum í þýska landsliðinu til margra ára, Silvio Heinevetter, á vítalínunni. Sneri boltann tvisvar fram hjá honum og laumaði honum einu sinni laust yfir höfuðið. Bitter og Kraus eldast vel í boltanum en þeir eru 36 og 35 ára. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert