Lentum bara strax á vegg

Kartrín Vilhjálmsdóttir komin í skotfæri í fyrri leik KA/Þórs og …
Kartrín Vilhjálmsdóttir komin í skotfæri í fyrri leik KA/Þórs og Vals á keppnistímabilinu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Við lentum bara strax á vegg og náðum okkur aldrei á strik,“ sagði Katrín Vilhjálmsdóttir, leikmaður KA/Þórs, í samtali við mbl.is, eftir að liðið steinlá fyrir Val, 31:16, í áttundu umferð Olís-deildar kvenna í handknattleik í Origo-höll þeirra Valsara í kvöld.

„Við vorum nánast frá upphafi í vandræðum í sóknarleiknum gegn sterkri vörn Vals. Okkur tókst aldrei að finna lausn til þess að brjóta varnarleik Vals á bak aftur og því fór sem fór,“ sagði Katrín sem skoraði aðeins eitt mark í kvöld enda ein þeirra sem komst lítt áleiðis gegn óárennilegri vörn Vals og markvörðum liðsins sem vörðu samtals á þriðja tug markskota.

„Okkar áætlun var að byggja leik okkar upp á sterkum varnarleik en því miður þá gengu þær áætlanir ekki eftir þegar við misstum Valsliðið allt of langt fram úr okkur nánast strax í upphafi leiks.  Þar á ofan varði Íris Björk mjög vel í marki Vals sem gerði okkur enn erfiðara fyrir,“ sagði Katrín sem vonast til þess að hún og stöllur hennar dvelji ekki of lengi við þetta stóra tap sem sé þó nokkurt bakslag eftir afar góðan sigur á Íslandsmeisturum Fram í síðustu viku.

„Þetta var skellur. Þegar maður tapar þá er ekki nema eitt til ráða og það er að snúa taflinu við og búa sig undir næsta leik sem verður við Hauka á okkar frábæra heimavelli á næsta þriðjudag. Við rifum okkur í gang og förum að búa okkur undir næsta leik,“ sagði Katrín Vilhjálmsdóttir hornamaður KA/Þórs sem sá fram á langa rútuferð norður í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert