Teitur skoraði níu í sigri toppliðsins

Teitur Örn Einarsson átti afar góðan leik.
Teitur Örn Einarsson átti afar góðan leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson átti afar góðan leik fyrir Kristianstad í 26:23-sigri á Ystad á heimavelli í efstu deild Svíþjóðar í handbolta í kvöld. Teitur skoraði níu mörk og var markahæstur á vellinum. 

Ólafur Andrés Guðmundsson bætti við einu marki fyrir Kristianstad en Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað. Kristianstad er í toppsætinu með 18 stig, þremur meira en Alingsås sem er í öðru sæti. 

Ágúst Elí Björgvinsson varði níu skot í marki Sävehof í 38:32-tapi fyrir Alingsås á útivelli. Sävehof er í áttunda sæti deildarinnar, en það sæti gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni að lokinni deildarkeppninni. 

mbl.is