Karen ristarbrotin

Karen Knútsdóttir.
Karen Knútsdóttir. mbl.is/Valgarður Gíslason

Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, leikmaður Íslandsmeistara Fram, er með brot í annarri ristinni og leikur ekki með Fram á ný fyrr en í byrjun næsta árs. Karen staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í gær.

Karen meiddist í viðureign HK og Fram 15. október og í fyrstu var ekki ljóst hvers eðlis meiðslin væru. Hún gerði tilraun til að leika með Fram gegn ÍBV í vikunni eftir HK-leikinn en fann fljótt að það gekk ekki. „Ég var bara á öðrum fæti og útilokað að harka eitthvað af sér,“ sagði sagði Karen við Morgunblaðið í gær.

„Batinn var hægur og eftir að ég hitti lækni á mánudag var staðfest að um brot væri að ræða,“ sagði Karen sem verður með aðra ristina í spelku næsta mánuðinn.

„Tímasetningin á fyrsta broti mínu á ferlinum er mjög slæm. Þetta er ömurlegt. Missi af mörgum leikjum með Fram og síðan undankeppni HM með landsliðinu í lok þessa mánaðar. Það er hrikalega leiðinlegt að missa af leikjunum í undankeppni HM. Við höfum lagt mikla vinnu í undirbúninginn um langt skeið en ég veit að stelpurnar klára verkefnið án mín,“ sagði Karen vonsvikin og skyldi engan undra.