Katrín Ósk fór mikinn er Selfoss-liðið braut ísinn

Katrín Ósk Magnúsdóttir, markvörður Selfoss.
Katrín Ósk Magnúsdóttir, markvörður Selfoss. mbl.is/Árni Sæberg

Þar kom að því að Selfoss vann sinn fyrsta leik í Olís-deildinni á keppnistímabilinu. Og það var enginn smáleikur, sigur á Íslands- og bikarmeisturum Fram á heimavelli þeirra í Safamýri.

Eftir sjö leiki og aðeins eitt stig kom að því að Selfoss-liðið náði að sýna hvers það er megnugt. Liðið hafði yfirhöndina nær allan leikinn gegn Fram og hafði m.a. fjögurra marka forskot þegar skammt var til leiksloka, 25:21. Heimaliðið náði að klóra í bakkann undir lokin og minnka muninn í eitt mark. Lengra komst það ekki.

Stórleikur Katrínar Óskar Magnúsdóttur, markvarðar Selfoss, lagði grunninn að sigrinum. Hún fór hamförum í markinu, varði 20 skot, þar af tvö vítaköst. Mörg skotanna sem Katrín Ósk varði voru úr opnum færum. Enda var niðurstaðan sú að hún fékk 10 í einkunn hjá tölfræðiveitunni HB Statz og það var verðskuldað. Fleiri leikmenn komu vitanlega við sögu og m.a. fór Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir á kostum og skoraði 13 mörk, þar af aðeins eitt úr vítakasti. Um leið tók hún afgerandi forystu á lista markahæstu leikmanna Olís-deildarinnar með 62 mörk, 13 mörkum fleiri en Arna Sif Pálsdóttir, línumaður ÍBV.

Neðstu liðin mætast næst

Selfoss og Stjarnan eru í tveimur neðstu sætum deildarinnar með þrjú stig hvort eftir átta leiki. Þau leiða saman hesta sína í næstu umferð deildarinnar í TM-höllinni í Garðabæ á þriðjudagskvöldið.

Tapið í fyrrakvöld var það þriðja í röð hjá Fram-liðinu. Tvö þeirra á heimavelli. Eftir einstaklega góðan upphafssprett í deildinni með fimm sigurleikjum hefur gefið á bátinn hjá Fram í síðustu leikjum. Steinunn Björnsdóttir lék með í gær eftir að hafa verið veik þegar Fram tapaði fyrir KA/Þór á dögunum. Karen Knútsdóttir er hinsvegar enn frá keppni vegna meiðsla sem hún varð fyrir í leik við HK 16. október.

„Það er ekkert langt síðan að við vorum að spila frábæran handbolta. Við þurfum að rífa upp gæðin á æfingum og aðeins að taka til í hausnum á okkur. Það er engin krísa hjá okkur en við þurfum að klára færin okkar betur en við höfum verið að gera. Sóknarleikurinn hjá okkur hefur verið heldur tilviljunarkenndur og hægur í upphafi tímabilsins og við fáum lítið af hraðaupphlaupsmörkum, eitthvað sem hefur einkennt okkur undanfarin ár. Þetta eru hlutir sem við verðum að laga fyrir næstu leiki,“ sagði Steinunn, fyrirliði Fram, í samtali við mbl.is eftir tapleikinn í fyrrakvöld.

Sjá alla greinina og lið umferðarinnar í Olís-deild kvenna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert