Verðugt og spennandi

Axel Stefánsson ræðir við leikmenn landsliðsins.
Axel Stefánsson ræðir við leikmenn landsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi hópur er skipaður yngri leikmönnum en stundum áður og kemur það meðal annars til af meiðslum nokkurra reyndra kvenna,“ sagði Axel Stefánsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Hann hafði þá tilkynnt val á 16 leikmönnum sem hann ætlar að tefla fram í þremur leikjum í forkeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í lok nóvember og byrjun desember í Skopje í Makedóníu.

Eins og kemur fram annars staðar hér á síðunni er hin leikreynda Karen Knútsdóttir úr Fram ristarbrotin. Auk hennar gátu Birna Berg Haraldsdóttir og Rut Arnfjörð Jónsdóttir, sem báðar leika með dönskum félagsliðum, ekki gefið kost á sér vegna meiðsla. Eins vekur athygli að Hildigunnur Einarsdóttir, leikmaður Dortmund, er ekki í hópnum.  Steinunn Björnsdóttir, Fram, gaf ekki kost á sér.  Skarð er sannarlega fyrir skildi í landsliðshópnum sem þar að auki hefur tekið miklum mannabreytingum á síðustu árum.

„Ég er alveg viss um að hópurinn sem ég hef valið er sá sterkasti sem völ er á um þessar mundir. Ég treysti leikmönnum fullkomlega til þess að fara í leikina og gera það gott. Verkefnið er verðugt og spennandi,“ sagði Axel í gær.

Fyrrgreind forkeppni fer fram í Skopje 30. nóvember, 1. og 2. desember. Auk landsliða Íslands og Makedóníu bítast landslið Aserbadsjan og Tyrklands um eitt sæti sem gefur þátttökurétt í umspilsleikjum um keppnisrétt á HM. Umspilsleikirnir verða háðir í júní.

Sjá allt viðtalið við Axel og landsliðshópinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag